13. desember 2023
13. desember 2023
Ísland fjölgar loftferðasamningum
Ísland tók nýverið þátt í árlegri samningaráðstefnu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) í Riyadh. Tilgangurinn var að auka markaðsaðgang fyrir íslensk fyrirtæki í flugrekstri með gerð tvíhliða samninga við erlend ríki.
Ísland tók þátt í árlegri samningaráðstefnu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) sem lauk í Riyadh í síðustu viku. Fulltrúar tæplega hundrað ríkja tóku þátt. Tilgangurinn var að auka markaðsaðgang fyrir íslensk fyrirtæki í flugrekstri með gerð tvíhliða samninga varðandi farþegaflug, farmflug, leiguflug og leigu á flugvélum með áhöfn.
Flugiðnaðurinn er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins og eru loftferðasamningar forsenda fyrir starfsemi fyrirtækjanna erlendis. Misjafnt er hversu víðtæk réttindi kveðið er á um í loftferðasamningum Íslands, en auk gagnkvæmra heimilda til farþega- og farmflugs milli samningsríkja veita margir samningar heimild til viðkomu í þriðju ríkjum og flugþjónustu án viðkomu í báðum samningsríkjum.
Á þessum ráðstefnum gerir Ísland ýmist nýja loftferðasamninga, uppfærir gildandi samninga, undirritar samninga sem áður hefur náðst samkomulag um eða hefur viðræður við ný samstarfsríki.
Nýir samningar voru gerðir við Antigva og Barbúda, Kosta Ríka, Georgíu, Haítí, Namibíu, Súrínam og Úganda. Samið var um aukin réttindi við Brasilíu sem fela í sér að íslensk flugfélög fá meðal annars rétt til farmflutninga án viðkomu á Íslandi (svokölluð 7. réttindi).
Samningar voru undirritaðir við Dóminíska lýðveldið, Seychelles-eyjar og Kúveit en áður hafði náðst samkomulag við þessi ríki. Samningaviðræður hófust við Gabon, Gvatemala, Tímor Leste og Pakistan.
Samningaviðræður um loftferðasamninga fara fram í samráði við íslensku flugfélögin. Ísland hefur nú gert slíka samninga við vel yfir hundrað ríki og bætast fyrrgreindir samningar því við þéttriðið samninganet.
Samninganefnd Íslands skipuðu Pétur Thorsteinsson, aðalsamningamaður, frá utanríkisráðuneyti, Valgerður B. Eggertsdóttir, lögfræðingur í innviðaráðuneytinu og Kristín Helga Markúsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs hjá Samgöngustofu.