Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

26. febrúar 2025

Hjúkrunarstjóri HSU á Höfn er prjónandi Seyðfirðingur á leiðinni í hálfmaraþon í Ljubljana

Jóna Bára Jónsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslu HSU á Höfn í Hornafirði

Jóna Bára Jónsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslu HSU á Höfn í Hornafirði

Jóna Bára Jónsdóttir er hjúkrunarstjóri heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Höfn í Hornafirði. Við heimsóttum heilsugæslu HSU á Höfn á dögunum og tókum hjúkrunarstjórann tali. Spurðum hana um bæði um bakgrunn og menntaveg, en líka starfið sjálft, ástríðuna fyrir faginu, verkahringinn og vinnudaginn hversdags. Klykktum svo út með forvitni um lífið eftir vinnu og komumst þá að því að prjónakonan Jóna Bára verður amma í vor og ætlar að hlaupa hálfmaraþon í Slóveníu næsta haust. Viðmælandi okkar segir ómetanlegan mannauðinn hjá HSU það besta við vinnustaðinn. Hún elskar að búa á Höfn, sem hún segir bæði státa af einstakri náttúrufegurð og virkilega góðu samfélagi.

BAKGRUNNUR OG MENNTAVEGUR
Jóna Bára er 53 ára. Hún er fædd og uppalin á Seyðisfirði og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. ,,Eftir stúdentspróf tók ég mér þriggja ára hlé frá námi til að skoða ýmsa möguleika og prófa hin og þessi störf. Ég skráði mig meira að segja í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og stundaði nám þar í eina önn, en áttaði mig fljótt á því að það ætti ekki alveg við mig. Ég hóf því nám í hjúkrunarfræði við HÍ og útskrifaðist þaðan árið 2001. Seinna ákvað ég að dýpka þekkingu mína enn frekar og lauk diplómanámi í öldrunarhjúkrun og heilsugæslu frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Núna er ég að klára meistaranám í bráðahjúkrun við HÍ, sem hefur verið bæði krefjandi og afar lærdómsríkt.”

HVERSU LENGI HJÁ HSU Á HÖFN?
,,Ég flutti til Hafnar sumarið 2002 og hóf þá störf hjá sveitarfélaginu sem rak bæði heilsugæsluna og hjúkrunarheimilið á þeim tíma. Fyrstu árin vann ég aðallega á hjúkrunarheimilinu, en árið 2012 fór ég að sinna heimahjúkrun innan Heilsugæslunnar. Frá þeim tíma hef ég unnið þar stöðugt, svo ég er búin að vera í 13 ár á heilsugæslunni sjálfri. Hins vegar hefur starfsstaðurinn minn formlega verið hluti af HSU frá sameiningunni árið 2020.”

VERKAHRINGUR HJÚKRUNARSTJÓRANS
,,Sem hjúkrunarstjóri á heilsugæslunni ber ég ábyrgð á að skipuleggja og samræma hjúkrunarþjónustu stofnunarinnar í samstarfi við mitt starfsfólk og sinna daglegum rekstri. Helstu verkefni mín felast í að tryggja gæðastarf innan hjúkrunarþjónustunnar, skipuleggja mannafla, úthluta verkefnum og funda með áhugaverðu fólki  um hin ýmsu málefni sem snúa að þjónustu okkar.”

ENGIR DAGAR ERU EINS
,,En ég er líka að vinna á gólfinu sem hjúkrunarfræðingur að fjölbreyttum verkefnum og er svo afskaplega heppin að fá að sinna skjólstæðingum sem til okkar leita. Vinnudagurinn getur því oft verið litríkur og  tekið á sig ýmsar myndir. Engir dagar eru nákvæmlega eins. Ég veit aldrei hundrað prósent hvað dagurinn ber í skauti sér þegar ég mæti í vinnuna. Hann getur falist í því að vera með lífstílsmóttöku, eitra og skafa vörtur, búa um sár og sinna slysum og bráðum veikindum. Og á sama tíma þarf ég kannski að aðstoða við blóðprufur, taka röntgenmyndir og sinna hlutverki hjúkrunarstjóra.”

BEST VIÐ VINNUSTAÐINN?
,,Það sem stendur upp úr er án efa samstarfsfólkið mitt. Ég er einstaklega heppin með vinnufélaga. Við erum samheldið teymi þar sem öll leggja sitt af mörkum til að veita sem besta þjónustu. Hér ríkir góður starfsandi, samvinna er í hávegum höfð og við styðjum hvert annað í krefjandi aðstæðum. Það skiptir miklu máli í heilbrigðisþjónustu að hafa sterka liðsheild og jákvætt andrúmsloft, og það er eitthvað sem ég met mjög mikils á mínum vinnustað.”

EINHVERJAR UMBÆTUR?
,,Ef ég gæti breytt einhverju, þá myndi ég vilja sjá enn frekari styrkingu á heilbrigðisþjónustunni okkar, bæði hvað varðar mannafla og aðstöðu. Það er mikilvægt að tryggja nægt starfsfólk og auka stöðugleika í mönnun, sérstaklega þegar kemur að læknum. Einnig myndi ég vilja efla þjónustu við íbúa enn frekar, til dæmis með aukinni sérfræðiþjónustu á staðnum, þannig að fólk þurfi síður að ferðast langar vegalengdir til að fá nauðsynlega meðferð. Við erum hins vegar núna að fá til okkar  lækni sem ætlar að vera hjá okkur að minnsta kosti í ár. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa stöðugleika í læknateyminu okkar, bæði fyrir skjólstæðinga og samstarfsfólk. Auk þess erum við alltaf að reyna að finna leiðir til að bæta þjónustuna okkar og  úrræði.”

EN HVERS VEGNA HJÚKRUNARFRÆÐINGUR?
,,Ég myndi segja að það hafi verið sambland af tilviljun og forvitni um heilbrigðisgeirann. Ég byrjaði í sjúkraþjálfun og hafði einnig áhuga á iðjuþjálfun, en á þeim tíma var það nám ekki kennt hér á landi. Ég ákvað því að prófa hjúkrunarfræði og sé ekki eftir því. Ég fann fljótt að hún átti vel við mig. Mér fannst hjúkrun veita mér einstakt tækifæri til að vinna náið með fólki og hafa raunveruleg áhrif á heilsu þess á sama tíma og hjúkrun veitti mér tækifæri til að þróast faglega á mörgum sviðum. Það var því sambland af áhuga, tilviljun og löngun til að starfa við eitthvað sem skiptir máli sem leiddi mig inn í hjúkrun.”

OG EF EKKI HJÚKRUNARFRÆÐINGUR… HVAÐ ÞÁ?
,,Ég hef satt best að segja ekki velt því mikið fyrir mér. En ef ég gæti skipt um starf á einni nóttu, þá held ég að það væri yfir í eitthvað sem tengist ferðalögum. Ég hef mikinn áhuga á að ferðast og kynnast nýjum stöðum, þannig að það væri gaman að starfa sem leiðsögumaður eða fararstjóri, hvort heldur hér heima eða erlendis. Að geta ferðast, frætt fólk um áhugaverða staði og upplifað nýja menningu myndi örugglega vera skemmtilegt og fjölbreytt starf.”

FJÖLSKYLDUHAGIR
,,Ég er gift Sigurði Halldórssyni, sem starfar sem Baader-maður hjá Skinney-Þinganesi. Við eigum þrjú börn: Jón Þór 28 ára, Thelmu Ýr 25 ára, og Andreu Sól 19 ára. Fjölskyldan stækkar brátt enn frekar, þar sem við eigum von á okkar fyrsta barnabarni í maí. Mikil tilhlökkun sem fylgir því. Auk þess er hundurinn okkar Rokko, sem er að verða 14 ára, mikilvægur fjölskyldumeðlimur.”

LÍFIÐ EFTIR VINNU
,,Að vinnudegi loknum snýst lífið þessa dagana mest um nám, þar sem ég stefni á að ljúka meistaranámi í bráðahjúkrun í vor. Þegar ég næ að slaka á finnst mér gaman að prjóna – það er róandi og gefandi. Núna er ég einmitt að prjóna heimferðarsett á væntanlega ömmuprinsessu. En ég hef líka áhuga á hlaupum og annarri útivist. Þegar ég varð fimmtug skráði ég mig í hlaupahóp og er enn virk í honum. Við hittumst reglulega til að hlaupa saman og er ég  meira að segja búin að  skrá mig í hálfmaraþon í Ljubljana í haust með hópnum mínum. Auk þess elskum við hjónin að ferðast og reynum að gera það eins mikið og við getum. Það er alltaf gaman að upplifa nýja staði og skapa skemmtilegar minningar saman.”

BEST VIÐ HÖFN?
,,Höfn er einstakur staður – hér sameinast fallegt umhverfi, stórbrotin náttúra og hlýlegt mannlíf. Náttúran er óviðjafnanleg með sínum tignarlegu fjöllum, jöklinum og sjónum, sem gefur bænum einstaka sérstöðu. En það er ekki síður mannlífið sem gerir Höfn að góðum stað til að búa á. Hér er gott samfélag.”

Jóna Bára Jónsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslu HSU á Höfn í Hornafirði

Jóna Bára Jónsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslu HSU á Höfn í Hornafirði.