25. febrúar 2025
25. febrúar 2025
Heimsókn heilbrigðisráðherra á Heilbrigðisstofnun Suðurlands
Alma D. Möller, heilbrigðisráðherra, ásamt Ástu Valdimarsdóttur, ráðuneytisstjóra, Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur og Rögnu Sigurðardóttur, alþingismönnum, auk Arnars Þórs Ingólfssonar, starfsmanns þingflokks Samfylkingarinnar, heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) þann 24. febrúar. Díana Óskarsdóttir, forstjóri sýndi gestunum hluta af húsnæði HSU á Selfossi og gafst gestunum tækifæri til samtals um starfsemina við fulltrúa starfseininganna.

Heimsóknin var afar gagnleg og bauð upp á tækifæri til að ræða ýmis brýn málefni sem snerta þjónustu, rekstur, áskoranir, þróun og framtíðarsýn HSU.
Þá var sérstaklega rætt um mikilvægi þess að tryggt fullnægjandi mönnun á öllum sviðum starfseminnar og brýnar úrbætur á húsnæðisþörf HSU. Einnig var fjallað um áskoranir sem stafa af auknum fjölda ferðamanna í umdæmi stofnunarinnar, sem leggur aukna ábyrgð á heilsugæslustöðvar HSU vegna vaxandi eftirspurnar eftir þjónustu.
Staldrað var við mikilvægi gæða- og þróunarverkefna stofnunarinnar. Þar ber helst að nefna nýsköpunarverkefni í heimahjúkrunar- og heimaspítalaþjónustu, sem miðar að því að gera hrumum, veikum og öldruðum sjúklingum kleift að dvelja lengur í heimahúsi. Fjarvöktun sjúklinga er stór þáttur í þessari þjónustu, þar sem sjúklingar framkvæma sjálfir mælingar með búnaði sem HSU útvegar. Upplýsingar úr mælingum berast til starfsfólks HSU sem fylgist með og grípur inn í ef þörf krefur. Heimaspítalaþjónustan veitir einnig þjónustu til frekari sjúklingahópa sem annars þyrftu að leggjast inn á sjúkrahús.
HSU þakkar heilbrigðisráðherra og fylgdarliði fyrir ánægjulega og fróðlega heimsókn og lítur fram á veginn til að halda áfram að þróa og bæta þjónustu sína í samræmi við stefnu stofnunarinnar um að efla lífsgæði skjólstæðinga.
Sjá einnig frétt á síðu Heilbrigðissráðuneytisins







