22. september 2024
22. september 2024
Heimsókn á Hraunbúðir í Eyjum
HSU í Vestmannaeyjum // Hraunbúðir
Marta Noga starfar við aðhlynningu og Heiðrún Rut Baldursdóttir er sjúkraliði.
Við heimsóttum hjúkrunar- og dvalarheimilið Hraunbúðir á dögunum og smelltum nokkrum myndum af starfsfólki þar. Hraunbúðir tilheyra starfsemi HSU í Eyjum og þar starfa sjötíu manns. Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) er einn stærsti og öflugasti vinnustaður Vestmannaeyja, en starfsfólk þar er liðlega 200 talsins í 115 stöðugildum. Í Eyjum búa nú um 4.600 manns. Deildarstjóri Hraunbúða er Una Sigríður Ásmundsdóttir.
35 RÝMI
Á Hraunbúðum eru 31 hjúkrunarrými og 4 dvalarrými. Starfsfólkið samanstendur af hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, starfsfólki í umönnun, starfsfólki í býtibúri, ræstingu og þvottum. Læknir starfar enn fremur við heimilið og kemur alla vega einu sinni í viku. Eins er greiður aðgangur að þeim læknum sem eru á vöktum á heilsugæslunni. Á heimilinu starfar virknifulltrúi og íþróttakennari. Hárgreiðslumeistari og fótaaðgerðarfræðingur koma sömuleiðis aðra hvora viku á heimilið og einnig prestur.
PERSÓNULEG HJÚKRUN
Fjölbreytt starfsemi fer fram á hjúkrunarheimilinu og ýmis konar sjálfboðaliðastarf er dýrmætur hluti af því starfi. Á Hraunbúðum er veitt einstaklingshæfð hjúkrun þar sem hjúkrunarfræðingur, sjúkraliðar og almennt starfsfólk hafa umsjón með hverjum einstaklingi og leitast er við að uppfylla líkamlegar, andlegar og félagslegar þarfir hans í samvinnu við aðstandendur hans og annað starfsfólk deildarinnar. Á Hraunbúðum er leitast við að aðstoða og styrkja einstaklinga í athöfnum daglegs lífs.
850 STARFA HJÁ HSU
Þess má geta að starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er glettilega víðfeðm, enda spannar umdæmi hennar allt Suðurlandið, út í Eyjar og síðan alla leið austur til Hafnar í Hornafirði. Starfsfólk HSU er um 850 talsins, en stöðugildin eru kringum 500. HSU rekur 2 sjúkradeildir og 2 hjúkrunardeildir, 9 heilsugæslur, 4 myndgreiningar- og rannsóknadeildir ásamt því að reka víðtæka sjúkraflutninga í umdæminu.
Sonja Andrésdóttir er virknifulltrúi Hraunbúða.
Lára Skæringsdóttir sinnir skjólstæðingi.
Hjúkrunarfræðingarnir Renestone Nabing Jimenez, Sharomae Soriano Ventura, Aliza Teresa Baranuelo Armea og John Dulay Educalan.
Gabríel Jónasson og Lilja Jensdóttir sjá um býtibúrið.
Tatiana Ceplighina er í þrifum og þvottum.
Anika Hera Hannesdóttir starfar við umönnun.
Hjúkrunarfræðingurinn Aðalsteinn Baldursson.
Marta og Heiðrún Rut.
Hraunbúðir í Vestmannaeyjum.
Myndir: Haraldur Jónasson (Hari)
Texti: Stefán Hrafn Hagalín