Fara beint í efnið

1. október 2024

Heilbrigðisgagnafræðingur og snyrtifræðingur með ástríðu fyrir íþróttum og útivist

HSU á Selfossi // Aðalheiður Ásgeirsdóttir, yfirheilbrigðisgagnafræðingur

Aðalheiður Ásgeirsdóttir

Aðalheiður Ásgeirsdóttir, yfirheilbrigðisgagnafræðingur HSU.

Við höldum hér áfram að gera mannauði, starfsemi og verkefnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) hátt undir höfði með því að spjalla við fólkið okkar. Að þessu sinni er Aðalheiður Ásgeirsdóttir viðmælandinn, en hún er yfirheilbrigðisgagnafræðingur HSU og með starfsstöð á Selfossi. Í skipulagseiningu Aðalheiðar starfa ellefu sérfræðingar, allt konur, annars vegar á Selfossi og hins vegar í Vestmannaeyjum. Af þessum hópi eru tíu heilbrigðisgagnafræðingar og einn nemi í faginu, auk starfsmanns í skjalavörslu.

GEGNA LYKILHLUTVERKI
Heilbrigðisgagnafræðingar gegna lykilhlutverki í heilbrigðiskerfinu og Aðalheiður segir starf sitt bæði fjölbreytt og skemmtilegt. „Það besta við HSU sem vinnustað er gott starfsfólk og góður starfsandi. Hérna eru öll að gera sitt besta í því að veita góða þjónustu og stuðla að góðum starfsanda. Ég held við séum öll samtaka í því að þróa hérna sannkallaðan fyrirmyndarvinnustað. Til viðbótar er sífellt verið að innleiða nýja og framsækna hluti hjá okkur. Það hefur verið gríðarleg framþróun hjá HSU undanfarin ár og það gerir allt svo miklu skemmtilegra,” segir viðmælandi okkar.

FÆDD Á DJÚPAVOGI
Aðalheiður fæddist á Djúpavogi og bjó þar til fjögurra ára aldurs, en flutti þá í Hveragerði með foreldrum sínum og systkinum. Eftir hefðbundna grunnskólagöngu í Hveragerði nam Aðalheiður í Skógaskóla um eins árs skeið, fór síðan í snyrtifræði á heilbrigðissviði Fjölbrautaskólans í Breiðholti og útskrifaðist sem læknaritari frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Fyrir fimm árum bætti hún við sig heilbrigðisgagnafræði við Háskóla Íslands. 

MEÐ LANDVARÐARÉTTINDI
Aðalheiði leiðist aldeilis ekki á menntaveginum og fyrir liðlega áratug bætti hún til dæmis við sig námi hjá Umhverfisstofnun þar sem hún öðlaðist landvarðaréttindi. Sömuleiðis lærði hún píanóleik og söng á yngri árum. „En ef við skoðum starfsferilinn til þessa, þá byrjaði ég á að passa börn og starfa í unglingavinnu, vann síðan í gróðurhúsum í Hveragerði og á Dvalarheimilinu Ási við ýmis störf. Starfaði einnig á sjúkrahúsinu á Neskaupstað þar sem ég bjó í fjögur ár. Fór síðan að vinna sem læknaritari á Heilsustofnun NLFÍ. Ég rak jafnframt eigin snyrtistofu í fjórtán ár eða allt þar til ég byrjaði að vinna sem læknaritari og síðar heilbrigðisgagnafræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands árið 2002.”

ÁSTRÍÐA FYRIR ÚTIVIST OG ÍÞRÓTTUM
En hvernig eru fjölskylduhagir Aðalheiðar? „Maðurinn minn heitir Kristinn Grétar Harðarson og starfar við tölvuþjónustu hjá Veðurstofu Íslands. Við eigum þrjú börn og fimm barnabörn. Það er stórkostlegt að eiga barnabörn og fá að taka þátt í uppeldi þeirra. Utan vinnu hef ég ástríðu fyrir allri útivist og íþróttum, svo sem hlaupum, sundi, hjólreiðum og göngum um fjöll og firnindi, auk þess sem ég stunda skíði yfir vetrartímann. Hef enn fremur mikinn áhuga á tónlist og handavinnu.”

STEFNDI ALLTAF Á HEILBRIGÐISKERFIÐ
Hún valdi sinn starfsferil einkum af því að hann er bæði fjölbreyttur og líflegur. „Ég elska starfið mitt þar sem það er bæði krefjandi og skemmtilegt. Mér hefur alltaf fundist heilbrigðismál áhugaverð og langaði alla tíð til að starfa í heilbrigðiskerfinu. Þegar ég var í efsta bekk gagnfræðaskólans í Hveragerði þá var okkur krökkunum til dæmis boðið upp á að fara í starfskynningu í eina viku. Ég valdi að fara á Sjúkrahúsið á Selfossi sem er í dag Heilbrigðisstofnun Suðurlands. En ef ég þyrfti að velja nýjan starfsferil myndi ég sennilega velja starf fréttamannsins. Ég var nefnilega oft að leika mér að því að lesa fréttir þegar ég var barn!”

YFIRMAÐUR OG KERFISSTJÓRI
Aðalheiður er yfirmaður heilbrigðisgagnafræðinga hjá HSU og einnig umsjónarmaður og kerfisstjóri sjúkraskrárkerfisins Sögu hjá HSU. „Sem yfirmaður felur starf mitt til dæmis í sér að manna allar stöður og stuðla að vönduðum vinnubrögðum, sem og að reyna að vera góð fyrirmynd og halda uppi góðum starfsanda. Sem kerfisstjóri Sögu felst starf mitt í því að aðlaga sjúkraskrárkerfið að okkar stofnun. Það felur einnig í sér aðgangsstjórnun heilbrigðisstarfsfólks að sjúkraskrárkerfinu og eftirlit með skráningu og uppbyggingu kerfisins. Að auki sinni ég kennslu á kerfið og er tengiliður milli HSU og þjónustudeildar Helix, sem er þróunaraðili kerfisins.”

ÞVERFAGLEGT HLUTVERK
„Heilbrigðisgagnafræðingar tryggja heildstætt utanumhald heilbrigðisupplýsinga í heilbrigðiskerfinu og sjá til þess að öryggi og aðgengi að þeim sé tryggt. Þeir bera ábyrgð á móttöku heilbrigðisupplýsinga, skipulagningu skráninga, kóðun, úrvinnslu og vistun og miðlun upplýsinga. Heilbrigðisgagnafræðingar koma líka að þverfaglegri teymisvinnu á heilbrigðissviði og vinna afskaplega náið með öðrum fagstéttum að fjölbreyttum verkefnum tengdum gagnavinnslu,” segir viðmælandi okkar, Aðalheiður Ásgeirsdóttir, að lokum.

Tinna Ósk Björnsdóttir, Berglind Erlendsdóttir, Aðalheiður Ásgeirsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir.

Öflugt teymi heilbrigðisgagnafræðinga hjá HSU á Selfossi: Tinna Ósk Björnsdóttir (nemi), Berglind Erlendsdóttir, Aðalheiður Ásgeirsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir.