Fara beint í efnið

15. nóvember 2024

Hagtíðindi Hagstofu Íslands um forsetakjör 1. júní 2024

Hagstofa Íslands hefur birt hagtíðindi um forsetakjörið sem fram fór 1. júní 2024

Hagstofa logo

Í Hagtíðindinum er gerð grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum kosninganna ásamt skiptingu atkvæða niður á frambjóðendur. Einnig er gerð grein fyrir tölum um aðstoð við kosningu ásamt kjörsókn bæði eftir aldri og bakgrunni. Að lokum er farið yfir tölur um kjósendur og greidd atkvæði á kjörfundi og utan kjörfundar ásamt gildum og ógildum atkvæðum.

Löng hefð er fyrir því að Hagstofa Íslands taki saman skýrslur um almennar kosningar á Íslandi. Í 126. grein laga um kosningar til Alþingis nr. 112/2021 er sérstakur kafli um hagskýrslugerð þar sem meðal annars kemur fram að Hagstofunni sé heimilt að vinna upplýsingar um kosningar, aðstoð á kjörstað og kjörsókn eftir kyni, aldri, ríkisfangi, búsetu og öðrum þeim breytum sem varpað geta ljósi á kjörsókn og framkvæmd kosninga.

Í aðdraganda forsetakosninganna 1. júní 2024 lét Hagstofa Íslands kjörstjórnum og yfirkjörstjórnum í té eyðublöð til útfyllingar vegna skýrslugerðar um niðurstöður kosninganna. Leitað var eftir upplýsingum um fjölda kjörstaða og kjördeilda, fjölda kjósenda eftir kyni, fjölda greiddra atkvæða á kjörfundi, fjölda greiddra utankjörfundaratkvæða og loks heildarfjölda atkvæða. Að loknum kosningum tóku yfirkjörstjórnir saman yfirlit sem Hagstofa Íslands fékk til sinnar skýrslugerðar og liggur til grundvallar þessu riti.

Hagstofa aflaði jafnframt upplýsinga frá yfirkjörstjórnum um aðstoð við kosningu á kjörfundi og frá sýslumönnum um aðstoð við kosningu utan kjörfundar.