24. febrúar 2023
24. febrúar 2023
Greining á pakkaþjónustu rafrænna þinglýsinga - Verkefnasaga
Verkefnið um rafrænar þinglýsingar er búið að vera í gangi frá árinu 2020. Í upphafi var áhersla lögð á þinglýsingu veðlána en núna er þungi verkefnisins í að hægt verði að þinglýsa fasteignagjörningum rafrænt. Slíkar aðgerðir gera kröfu á þinglýsingu margra færslutegunda í einum pakka og því var ráðist í að greina og setja upp pakkaþjónustu. Það má hugsa pakkaþjónustuna svolítið eins og plastmöppuna sem fasteignasalan heldur utan um á meðan verið er að ganga frá kaupsamningi og fjármögnun fasteigna.
Rafrænar þinglýsingar eru byggðar upp á vefþjónustum þar sem lánveitendur og fasteignasalar sækja um aðgang að vefþjónustum og tengja sín kerfi við í gegnum API þjónustulag. Þessir aðilar eru gjarnan kallaðir þinglýsingarbeiðendur.
Þinglýsingarbeiðandi er sá aðili sem óskar eftir þinglýsingunni. Í langflestum tilfellum er það lánveitandi eða fasteignasali sem tekur sér það hlutverk.
Við greiningu svona stórra aðgerða sem útfæra þarf með stafrænum lausnum þarf meðal annars að hafa í huga lög og vinnureglur, aðgengi að upplýsingum og viðskiptalógík, upplifun og flæði notenda ásamt kröfum hagaðila. Við útfærslu pakkaþjónustunnar var haldin vinnustofa með fulltrúum fagráðs sýslumanna, verkefnastjórum og hugbúnaðarteymi svo að finna mætti bestu útfærsluna sem uppfyllti samt þær kröfur sem við gerum til lausnarinnar almennt.
Eins og fyrr segir kalla fasteignaviðskipti á þinglýsingu margra færslna á sama tíma. Í flestum tilfellum eru það kaupsamningur, veðskuldabréf og veðleyfi sem þarf til að viðskiptin megi klára í einni aðgerð. Til að tryggja röð aðgerða og að allir hagsmunaaðilar séu upplýstir stofnar fasteignasali pakka þar sem kaupsamningurinn er grunnskjal pakkans. Fasteignasali upplýsir aðra þinglýsingabeiðendur um pakkan og tryggir að allar viðeigandi færslur verða tengdar við pakkan.
Kaupsamningur er samningur um kaup og sölu á einhverri eign. Við fasteignakaup er þessum samningi þinglýst til að tryggja réttindi eigenda gagnvart þriðja aðila.
Veðleyfi segir til um hvar í röðinni mismunandi veðhafar (til dæmis lánveitandi) eru þegar kemur að því að gera lánið upp, komi til vanskila.
Eins og í dag gegnir fasteignasali lykilhlutverki í fasteignaviðskiptum og tryggir að röð aðgerða og allar viðeigandi upplýsingar séu tengdar við pakkan. Þegar allir tengt skjöl við pakkan sendir fasteignasalinn pakkan í rafræna þinglýsingu. Sjálfvirk villupróf og viðskiptalógik sem ákvarðar röð aðgerða tryggir rafræna þinglýsingu, þegar þinglýsingu er lokið fá allir málsaðilar staðfestingu inn í pósthólf á Ísland.is.
Réttaráhrif þinglýsinga miðast við þegar pakki er móttekin og dagbókafærður, þetta þýðir að engin afstaða hefur verið tekinn fyrr en fasteignasali hefur sent pakkan til þinglýsingar, þegar þinglýsingarbeiðendur hafa tengt færslur við pakka en fasteignasalinn hefur ekki sent pakka hefur innihald pakkans ekki verið dagbókafærður og fær enginn aukin réttindi.
Áætlað er að útgáfa pakkaþjónustunnar verði í September 2023, í kjölfar útgáfu á þjónustu fyrir afsöl, kaupsamninga og veðleyfi.
Að verkefninu koma: Sýslumenn, Prógramm, Júní, Intellecta, Direkta og Stafrænt Ísland