Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

28. febrúar 2025

Fyrrverandi grásleppusjómaður segir aðlögunarhæfni, samstarfsvilja og ástríðu fyrir faginu vera lykilatriði fyrir lækna á landsbyggðinni

Elín Freyja Hauksdóttir, yfirlæknir heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Höfn í Hornafirði

Elín Freyja Hauksdóttir, yfirlæknir heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Höfn í Hornafirði

Elín Freyja Hauksdóttir er yfirlæknir heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Höfn í Hornafirði. Við tókum hús á Elínu Freyju og spurðum út í starfið og vinnustaðinn auk þess að forvitnast aðeins um bakgrunn hennar, fjölskylduhagi og lífið eftir vinnu. Í ljós kemur að viðmælandi okkur er Reykvíkingur sem sinnti litríkum verkefnum á borð við grásleppuveiðum, leikskólum og álveri á unglingsárunum, en lagði síðan stund á  læknisfræði í Kaupmannahöfn. Hún hefur frá heimkomunni 2012 starfað í tæplega þrettán farsæl ár sem læknir á Höfn. Elín Freyja segir hér frá og leggur í leiðinni fram nokkur lykilatriði fyrir lækna á landsbyggðinni.

ÞRETTÁN FARSÆL ÁR Á HÖFN
,,Ég fæddist á Landspítalanum hinn 22. október árið 1981 og ólst upp í Reykjavík. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund og flutti svo út til Kaupmannahafnar árið 2003 til að hefja nám í læknisfræði. Eftir að hafa lokið grunnnámi og kandidatsári fluttum við heim til Íslands árið 2012. Þegar við komum heim réði ég mig á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi og var þar í hálft ár. Það var frábær leið til að kynnast íslenska heilbrigðiskerfinu og ná aftur tökum tungumálinu eftir tæpan áratug erlendis. Læknisfræðin mín var nefnilega öll á dönsku þannig að ég upplifði mig frekar málhalta faglega fyrst um sinn. Haustið 2012 fluttum við svo austur á Höfn þar sem ég hef starfað síðan.”

GRÁSLEPPUSJÓMAÐUR SEM ÆTLAÐI AÐ VERÐA VERKFRÆÐINGUR
Við forvitnumst með hefðbundnum hætti um fyrri störf. ,,Fyrir læknisfræðina prófaði að vinna við ýmislegt og og var alltaf í vinnu með menntaskóla. Ég fór til dæmis á sjóinn 12 ára og var á grásleppu í Breiðafirði. Þar vann ég 4 sumur, sem var æðislegur tími. Ég vann sömuleiðis í álverinu í Straumsvík, á leikskóla, bar út póst, afgreiddi í Intersport og var í sjúkragæslu uppi í Skálafelli á skíðasvæðinu. Ég vann síðan á tilraunastofu verkfræðiskrifstofu í eitt ár eftir stúdentspróf þegar ég hélt að ég ætlaði að verða verkfræðingur.”

FJÖLBREYTT OG KREFJANDI STARF
Við forvitnumst  því næst um starf viðmælandans og ,,Vinnudagar lækna á landsbyggðinni geta verið ótrúlega margbrotnir og krefjandi, en þeir eru líka á sama tíma fjölbreyttir og líflegir. Meginþorri starfs míns er að vera heimilislæknir, sem sinnir sínu fólki á öllum aldursskeiðum, allt frá vöggu til grafar. Önnur verkefni eru bráðatilfellin og sá hluti verkahrings míns fer því miður ört vaxandi. Bæði bráð veikindi og minniháttar slys sem fólk leitar sjálft á heilsugæsluna til okkar með, en einnig lífsógnandi veikindi og stærri slys þar sem læknir þarf að fara með sjúkrabíl á vettvang. Vegna stóraukinnar ferðaþjónustu og umferðar um svæði, sem hefur oft og tíðum varasöm akstursskilyrði, hefur verið nokkuð um stærri umferðaslys þar sem hópslysaáætlun er virkjuð. Önnur verkefni mín felast meðal annars í að sinna hjúkrunarheimilinu og vistfólki þar. Jafnframt erum við með þrjú sjúkrarými fyrir styttri og einfaldari innlagnir, sem ekki krefjast annarrar sérfræðiþjónustu.”

HEIMSFARALDUR OG HÓPSÝKINGAR
,,Þar fyrir utan er ég umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi, og hef tekist á við verkefni eins og heimsfaraldur Covid og hópsýkingar á hálendi Suðurlands. Yfirlæknir hér þarf enn fremur alltaf að verja tölvuverðum tíma í að manna læknastöður og sinna ýmsum öðrum stjórnsýslulegum verkefnum sem tengjast rekstri heilsugæslunnar.”

MIKILL MANNAUÐUR
Elín Freyja er afskaplega ánægð með starfsfólk HSU á Höfn. ,,Mannauðurinn er mikill hjá okkur. Hér starfa fjórir hjúkrunarfræðingar, ljósmóðir, sjúkraliði, sjúkraþjálfari, umsjónarmaður fasteigna, heilbrigðisgagnafræðingur og annar verðandi heilbrigðisgagnafræðingur, sem er núverandi móttökuritari. Þar fyrir utan erum við með öflugan hóp sjúkraflutningafólks. Ég finn hvað það er ómetanlegt að vinna með svona öflugum hópi fólks. Hvert og eitt leggur sitt af mörkum til að gera heilsugæsluna að því besta sem hún getur verið."

BEST VIÐ VINNUSTAÐINN?
,,Það sem er best við vinnustaðinn minn er samstarfsfólkið. Samstarfið er rosalega gott og við vinnum alltaf saman sem ein heild. Við reynum að fullnýta hæfni hvers og eins. Nýtum til að mynda krafta sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga til að létta undir vinnu lækna, sem þá geta hitt fleiri sjúklinga. Flæðið er gott, samskiptin eru til fyrirmyndar og líðanin í vinnunni er framúrskarandi.”

ÁSTRÍÐA FYRIR FAGINU ER MIKILVÆG
Hver myndirðu segja að væri lykillinn að velferð í starfi, sem læknir á landsbyggðinni? ,,Aðlögunarhæfni, samstarfsvilji og ástríða fyrir faginu eru lykilatriði fyrir okkur sem sinnum læknisstörfum á landsbyggðinni. Fjölbreytileiki starfsins og gott samstarfsfólk gerir alla vinnudaga spennandi. Símenntun og ótti við að staðna halda mér einnig á tánum. Að halda mánaðarleg fræðslukvöld fyrir samstarfsfólk hjálpar mér til dæmis að muna og viðhalda mikilvægri færni, eflir aðra í þeirra færni, bætir samskipti okkar á milli og eykur sjálfstraust starfsfólks. Þessi kvöld eru einnig oftast bara mjög skemmtileg! Ég verð að kalla það skynsemi, verandi oft eini læknirinn á svæðinu, að þjálfa vel upp annað heilbrigðisstarfsfólk hér á Höfn, ef upp kæmi sú staða að það verð ég sjálf sem þarf á þjónustunni að halda.”

GOTT JAFNVÆGI MILLI VINNU OG EINKALÍFS
Við vindum okkar kvæði í kross og spyrjum hvernig Elín Freyja og eiginmaðurinn ná að skapa jafnvægi milli vinnu og einkalífs? ,,Eiginmaður minn, Baldvin Guðlaugsson, er hlutastarfandi sjúkraflutningamaður og heimavinnandi í dag. Fyrir tveimur árum ákvað hann sem sagt að loka rakarastofu sinni hér á Höfn til að einbeita sér að heimilinu og börnunum, sem eru 11 og 17 ára í dag. Þessi breyting var alveg mögnuð fyrir bæði okkur og fjölskylduna. Í rauninni besta ákvörðun sem við höfum tekið. Hún létti álagi af okkur báðum, þar sem hann tók við miklum hluta af daglegum verkefnum heimilisins sem þá biðu okkar ekki eftir vinnu. Með þessu höfum við bæði fengið meira svigrúm til að sinna áhugamálum okkar og eiga fleiri gæðastundir með fjölskyldunni.”

FERÐAGLATT ÚTIVISTARFÓLK MEÐ SKOTVEIÐIÁHUGA
Hvernig er lífið eftir vinnu? ,,Við hjónin eigum fjölmörg sameiginleg áhugamál og gerum nánast allt saman. Okkar helsta vandamál er tímaskortur og vinnan. Annað okkar er yfirleitt á vakt. Við elskum ferðalög, hvort sem það er innanlands eða erlendis. Við erum á snjósleðum, gönguskíðum, fjallaskíðum og snjóbretti. Erum líka komin á rafmagnsfjallahjól sem hefur opnað nýjar víddir fyrir okkur. Elskum einnig fjallgöngur innanlands sem erlendis. Við stundum einnig skotveiði, Baldvin þó meira en ég þar sem hann á aðeins auðveldara með að hlaupa úr vinnunni. Við fengum okkur veiðihund síðasta vor og bíðum nú óþolinmóð eftir því að tíkin stækki og verði almennilega nothæf.”

KÓSÝ STUNDIR HEIMA MIKILVÆGAR
,,Lífið úti á landsbyggðinni er vitaskuld í mikilli nálægð við náttúruöflin og skapar því einstök tækifæri í útivist. En okkur finnst líka mikilvægt að eiga kósý stundir heima. Ég elska að skipuleggja stórar ferðir, hvort sem það er innanlands eða erlendis, og þarf alltaf að hafa að minnsta kosti eina slíka ferð í bígerð. Ég nota svoleiðis verkefni til að slaka á, hlakka til og komast gegnum álagstíma í vinnu. Að stunda reglulega hreyfingu hefur sömuleiðis reynst mér stórkostleg vörn gegn streitu og ekki er verra að geta verið góð fyrirmynd í samfélaginu.”

FYRSTU HJÁLPAR NÁMSKEIÐ KVEIKTI BAKTERÍUNA
Við leitum aftur til fortíðar og spyrjum hvers vegna Elín Freyja valdi starfsferil læknisins? ,,Ég sá mig einhvern veginn aldrei fyrir mér í neinu öðru. Ég byrjaði 16-17 ára gömul í björgunarsveit og þar sá ég fljótt að fyrsta hjálp átti vel við mig. Eftir vikulangt námskeið með yfirskriftinni Fyrsta hjálp í óbyggðum snemma árs 2003, þá var ekki aftur snúið. Ég kom heim af námskeiðinu og fór strax að vinna í umsókn í læknisfræði. Kaupmannahöfn varð fyrir valinu því námið þar er frítt og ég hafði stúdentspróf í dönsku. Mig hafði líka alltaf langað til að fara til Danmerkur. Þegar út var komið komst ég þó fljótt að því að þessi danska sem kennd er á Íslandi dugði skammt í Danmörku!”

ANNARS SMIÐUR EÐA RAFVIRKI…
En ef hún þyrfti að velja sér nýjan starfsferil í dag? ,,Þá færi ég sennilega að vinna sem smiður eða rafvirki. Við byggðum okkur nefnilega hús fyrir fjórum árum og það var alveg þrælskemmtilegt.”

Uppi á Vatnajökli með Öræfajökul í baksýn

Uppi á Vatnajökli með Öræfajökul í baksýn.

Hjónin Elín Freyja og Baldvin í Nepal. Í baksýn er ekki Everest heldur eitt af mörgum fjöllum Kumbu-dalsins.

Hjónin Elín Freyja og Baldvin í Nepal. Í baksýn er ekki Everest heldur eitt af mörgum fjöllum Kumbu-dalsins.

Elín Freyja, Baldvin og félagar hjá Björgunarfélagi Hornafjarðar ræstu Kids Save Lives-verkefnið árið 2017, en það er endurlífgunarkennsla í 7., 8. og 9. bekk. Í dag sér skólahjúkrunarfræðingurinn á Höfn um verkefnið.

Elín Freyja, Baldvin og félagar hjá Björgunarfélagi Hornafjarðar ræstu Kids Save Lives-verkefnið árið 2017, en það er endurlífgunarkennsla í 7., 8. og 9. bekk. Í dag sér skólahjúkrunarfræðingurinn á Höfn um verkefnið.

Fjölskyldan á snjóbrettum í Selva Ítalíu 2024. Daníel Haukur er sá eldri og Aron Elí yngri.

Fjölskyldan á snjóbrettum í Selva Ítalíu 2024. Daníel Haukur er sá eldri og Aron Elí yngri.

Starfstorg á Höfn 2024. Fyrirtæki og stofnanir mæta og kynna sína starfsemi. Aron Elí er þarna ásamt foreldrunum að sýna hnoðkunnáttu sína.

Starfstorg á Höfn 2024. Fyrirtæki og stofnanir mæta og kynna sína starfsemi. Aron Elí er þarna ásamt foreldrunum að sýna hnoðkunnáttu sína.

Bráðagengi HSU Höfn að gera sig klár fyrir flugslysaæfingu 2024.

Bráðagengi HSU á Höfn að gera sig klár fyrir flugslysaæfingu 2024.

Mynd frá fræðslukvöldi bráðagengis HSU á Höfn.

Mynd frá fræðslukvöldi bráðagengis HSU á Höfn.