13. nóvember 2024
13. nóvember 2024
Fjársýslan leitar fjártæknilausna
Nýtt verkefni í opinberri nýsköpun á vegum Fjársýslunnar og Fjártækniklasans er í burðarliðnum.
Áskorunin
Fjársýslan sinnir bókhaldsþjónustu fyrir um 150 A-hluta stofnanir og um 30 stærri stofnanir halda eigið bókhald. Samtals eru þessar stofnanir með um 1.400 – 1.500 viðskiptakort í rekstri.
Áskorun Fjársýslunnar er tvíþætt:
Mikil handavinna fylgir uppgjöri viðskiptakorta og tafir á gagnaskilum skapa mikla álagspunkta á fjármálasviði Fjársýslunnar
Ófullkomin gagnaskil skekkja yfirsýn innkaupagagna ríkisins
Í samstarfi við Fjártækniklasann óskar Fjársýslan eftir áheyrn fyrirtækja á fjártæknimarkaði á sérstökum kynningarfundi um áskorunina þar sem þörf Fjársýslunnar verður gerð skýr skil og fyrirtæki geta lagt fram fyrirspurnir í umræðu við fulltrúa Fjársýslunnar að kynningu lokinni.
Og hvað svo?
Í kjölfar kynningarfundarins mun Fjársýslan óska eftir tímabundnu samstarfi um prófanir fjártæknilausna sem teljast mæta þörfum stofnunarinnar. Samstarfið verður skilgreint sem liður í undirbúningi Fjársýslunnar að fyrirhuguðum innkaupum á nýsköpun í bókhaldsþjónustu ríkisins og innleiðingu lausna í fjármálastarfsemi A-hluta stofnana.