2. febrúar 2023
2. febrúar 2023
Fjársýslan hefur lokað eldri vefsíðu og opnað nýja síðu á Ísland.is
Fjársýslan hefur flutt vefsíðu sína á Ísland.is. Stofnunin telur nýja vefinn aðgengilegri og þjóna betur tilgangi sínum á Ísland.is, þar sem notendur hafa aukið aðgengi að upplýsingum og þjónustu ásamt því að geta í sumum tilfellum nýtt sér innskráningu og „Mínar síður" til að afgreiða eigin mál.
Stafræn þjónusta
Fjársýslan hefur haft þarfir notenda í brennidepli frá því síðasti vefur var opnaður og unnið markvisst að framsetningu efnis með gott aðgengi í huga. Færsla vefsins yfir á Ísland.is var unnin í samstarfi við Stafrænt Ísland sem hefur það hlutverk að styðja við stofnanir ríkisins á stafrænni vegferð þeirra. Til að tryggja bætta þjónustu eru þarfir notenda áfram í fyrirrúmi og þá með sérstakri áherslu á að stytta boðleiðir og biðtíma, einfalda afgreiðslu og gera notendum kleift að ljúka sem flestum málum upp á eigin spýtur.
Ingþór Karl Eiríksson, fjársýslustjóri:
Nýr vefur Fjársýslunnar sem unninn hefur verið með Stafrænu Íslandi er mikilvægt skref í því að bæta þjónustu stofnunarinnar. Þetta er eitt skref af mörgum sem Fjársýslan tekur í samstarfi við Stafrænt Ísland og fékk stofnunin sérstaka viðurkenningu fyrir stafræn skref á ráðstefnunni „Tengjum ríkið“ á síðasta ári. Skýrar og einfaldar upplýsingar á aðgengilegu formi eru mikilvægur þáttur í þjónustu stofnunarinnar og þessi breyting núna styður áframhaldandi þróun í rétta átt.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands:
Við hjá Stafrænu Íslandi erum afar þakklát fyrir að eiga svona öflugan samstarfsaðila og bjóðum Fjársýsluna velkomna í Ísland.is samfélagið. Fjársýslan hefur reynst mikill liðsstyrkur í þróun og upplýsingagjöf bæði á Ísland.is og „Mínum síðum" Ísland.is.
Fjöldi stofnana hefur þegar fært vefi sína á Ísland.is og stuðlað þannig að bættri stafrænni þjónustu. Markmiðið er að notendur geti nálgast opinberar upplýsingar og afgreitt eigin mál á þægilegan og fljótlegan máta.