12. júlí 2023
12. júlí 2023
Farþegaflutningar með bátum í atvinnuskyni
Samgöngustofa vill árétta að farþegaflutningar í atvinnuskyni með bátum hér við land, svo sem skoðunarferðir og veiðiferðir ferðmanna, eru háðir leyfi Samgöngustofu.
Samgöngustofa vill árétta að farþegaflutningar í atvinnuskyni með bátum hér við land, svo sem skoðunarferðir og veiðiferðir ferðmanna, eru háðir leyfi Samgöngustofu. Gildir þetta um alla báta, svo sem RIB-báta, Zodiac báta eða aðra báta.
Um tvenns konar leyfi er að ræða:
Séu bátarnir undir 6 metrum þarf starfsleyfi fyrir þá, þar sem tekið er fram hvernig starfseminni verði háttað, tryggt sé að tryggingar séu fullnægjandi o.þ.h.
Séu bátarnir yfir 6 metrum að lengd þarf að sækja um farþegaleyfi fyrir bátana og þarf starfsemin að uppfylla sömu kröfur og getið er hér að framan.
Fyrir báta 6 m og lengri skal nota eyðublaðið Umsókn um leyfi/endurnýjun á leyfi til farþegaflutninga með skipum, sem er að finna á vef Samgöngustofu.
Eyðublað fyrir báta undir 6 metrum er að finna á heimasíðu Samgöngustofu undir Umsókn um starfsleyfi til reksturs bátaleiga, kajakleiga, flúðasiglinga og siglingaklúbbs.
Hafnarsvæði eru ekki undanþegin og geta hafnir því ekki leyft farþegaflutninga með förum sem ekki hafa til þess tilskilin leyfi.
Þessar upplýsingar hafa einnig verið sendar á umboðsmenn erlendra skipa varðandi notkun léttbáta erlendra skemmtiferðaskipa til skoðunarferða.
Samkvæmt 41. gr. skipalaga nr. 66/2021 þarf leyfi Samgöngustofu til farþegaflutninga í atvinnuskyni í lögsögu Íslands en erlend skemmtiferðaskip, sem falla undir SOLAS reglurnar, eru undanþegin reglunum, sem og skipsbátar þeirra þegar þeir eru eingöngu notaðir til þess að ferja fólk beint í land og til baka.