Fara beint í efnið

17. maí 2022

Endurnýjun dvalarleyfis - stafræn umsókn

Umsóknir um endurnýjun dvalarleyfa er nú hægt að senda Útlendingastofnun með stafrænum hætti í gegnum vef Ísland.is.

rikisborgararettur

Þú þarft að sækja um endurnýjun dvalarleyfis að minnsta kosti fjórum vikum áður en gildistími fyrra leyfis rennur út.

Ef þú sækir um endurnýjun dvalarleyfis eftir að gildistími fyrra leyfis er útrunninn, verður farið með umsóknina eins og um fyrsta dvalarleyfi þitt sé að ræða.

Afgreiðslutími endurnýjunar er að hámarki 90 dagar frá því að fullnægjandi gögn hafa borist, nema um flóknari umsóknir sé að ræða sem þarfnast frekari vinnslu. Ef þú sendir fullnægjandi fylgigögn með umsókn tekur vinnsla umsóknar almennt styttri tíma.

Ef þú uppfyllir áfram skilyrði dvalarleyfis er það endurnýjað. Eftir að þú færð svar þarftu að mæta í myndatöku, í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðis. Mundu eftir vegabréfinu þínu til að sanna hver þú ert! Dvalarleyfiskortið verður síðan sent heim til þín.

Ef þú uppfyllir ekki skilyrði fyrir endurnýjun dvalarleyfis er umsókninni synjað. Það þýðir að þú færð ekki það dvalarleyfi sem þú sækir um. Synjanir umsókna um dvalarleyfi eru skriflegar stjórnvaldsákvarðanir sem má kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá þeim degi sem þú móttekur synjun. Hér má finna nánari upplýsingar um synjanir og heimild til kæru.

Umsókn um endurnýjun er næsta stóra skrefið í stafrænni vegferð Útlendingastofnunar á eftir stafræn umsókn um íslenskan ríkisborgararétt.

„Stafræn umsókn um endurnýjun dvalarleyfis er mikilvægur áfangi á leið Útlendingastofnunar að innleiðingu stafrænna lausna við móttöku og afgreiðslu umsókna sem og í samskiptum við umsækjendur. Markmiðið með þeirri vinnu er bæta þjónustu stofnunarinnar, auka skilvirkni og spara umsækjendum sporin“ segir Kristín Völundardóttir forstjóri Útlendingastofnunar.

Umsækjendur þurfa að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum til að opna umsóknina en leiðbeiningar fyrir umsækjendur er að finna á Ísland.is/endurnyjun