19. nóvember 2024
19. nóvember 2024
Endurmenntun atvinnubílstjóra - sektir og kyrrsetning
Frá og með 1. desember næstkomandi ætlar lögregla að kæra þá ökumenn sem hafa ekki lokið tilskilinni endurmenntun atvinnubílstjóra. Geta þeir búist við sektum. Einnig má búast við að ökutækið verði kyrrsett þar til ökumaður sem uppfyllir skilyrðin tekur við akstri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Í 10. mgr. 58. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 er kveðið á um að ökumenn sem stjórna ökutækjum í C1-, C-, D1- og D-flokki til farþega- og farmflutninga í atvinnuskyni skuli gangast undir endurmenntun á fimm ára fresti. Umræddar aðgerðir eru fyrirhugaðar af lögregluliðum á Vesturlandi, Suðurlandi og Norðurlandi eystra, sem sjá um sértækt eftirlit með atvinnuökutækjum.