16. október 2023
16. október 2023
CERT-IS varar við netsvikum sem notar útlit Ísland.is
Athugið að Ísland.is er aldrei notað til innskráningar í heimabanka
Reglulega síðustu vikur hafa óprúttnir aðilar sent erindi til einstaklinga í nafni Ísland.is. Er þetta gert í þeim tilgangi að komast yfir persónuupplýsingar. Þessar tilteknu vefveiðar (e. phishing) sem eru í gangi þessa dagana ganga út á að biðja fólk að nota rafrænu skilríkin sín til að skrá sig inn á heimabanka.
Við hjá Ísland.is vitum ekki dæmi þess að svindlararnir hafi haft erindi sem erfiði en erum þakklát bæði þeim sem hafa látið okkur vita af svindlinu og sömuleiðis þeim sem hafa varað samborgara sína við svikaherferðinni á samfélagsmiðlum og víðar síðustu daga. Upplýsingagjöf og samstaða er besta vörnin enda margsannað að nágrannavarsla ber árangur og eykur öryggi okkar allra.
Almenna reglan er að skoða vel hver sendandi sé sem við fyrstu sýn gæti litið traustvekjandi en ekki þegar tölvunetfangið eða vefslóðin er skoðuð nánar.
Hvetjum sömuleiðis fólk til að tilkynna netglæpi til CERT-IS eða netfangið cert@cert.is
Hjálpumst áfram að við að verja persónuupplýsingar okkar.
Kveðja,
Starfsfólk Stafræns Íslands