Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

28. janúar 2025

Allt í góðu með vegabréfið?

Vissir þú!…að með því leiðinlegra sem hægt er að lenda í er vegabréfsvesen þegar halda á út í fríið.

Vegabréf

Því er gott að hafa ýmis atriði í huga. Til dæmis hafa margir lent í vandræðum vegna gildistíma vegabréfa. Ríki innan EES og Schengen gera flest kröfu um að ferðaskilríki (vegabréf og nafnskírteini) gildi að minnsta kosti þremur mánuðum lengur en áætluð dvöl í viðkomandi ríki. Hins vegar gera mörg ríki utan EES kröfu um að ferðaskilríki gildi að minnsta kosti 6 mánuðum lengur. Svo í einstaka tilfellum jafnvel enn lengri gildistíma. Því er rétt að kynna sér hvaða kröfur eru gerðar í þeim ríkjum sem á að heimsækja.

Svo gæti þurft að huga að vegabréfsáritunum. Í þeim tilvikum þar sem ekki er í gildi gagnkvæmur samningur á milli landanna þurfa ferðamenn að hafa samband við sendiráð þess ríkis gagnvart Íslandi eða afla upplýsinga á vef þess til að kanna hvort sækja þurfi um áritun fyrir fram og þá með hvaða hætti skuli sótt um. Finna má upplýsingar um vegabréfsáritanir á vef utanríkisráðuneytisins.

Svo er ýmislegt annað sem gæti þurft að huga að, svo sem varðandi neyðarvegabréf eða vegabréf fyrir nýfædda Íslendinga erlendis og þá er gott að kíkja á Spurt og svarað síðuna hjá Stjórnarráðinu.

Svo er hægt að nálgast umsókn um vegabréf og fá upplýsingar um gjaldskrá á svæði sýslumanna.