20. janúar 2025
20. janúar 2025
2024 metár í greiðslum á Ísland.is
Notkun allra kjarnaþjónusta á Ísland.is óx árið 2024 og því mikilvægt að tryggja að sú aukning skili sér alla leið — að notendur viti af og velji stafrænar lausnir umfram pappírsferli.
Notkun allra kjarnaþjónusta á Ísland.is óx árið 2024 og því mikilvægt að tryggja að sú aukning skili sér alla leið - að notendur viti af og velji stafrænar lausnir umfram pappírsferli.
Samhliða aukinni notkun Umsóknarkerfis Ísland.is jukust greiðslur í gegnum Greiðslukerfi Ísland.is. 2024 var metár, landsmenn greiddu 122 þúsund sinnum fyrir ýmsa þjónustu á Ísland.is óháð þjónustuveitanda.
Einn þeirra mælikvarða sem Stafrænt Ísland notar til að meta raunverulegan árangur stafvæðingar snýr að hlutfallinu milli handvirkrar og stafrænnar afgreiðslu. Ástæða þess að fylgst er sérstaklega vel með flutningi frá handskráðri yfir í stafræna afgreiðslu er til að tryggja að sú fjárfesting sem er að baki stafvæðingar ferlanna sé í raun að skila tilætluðum árangri. Þegar þjónusta er í boði á Ísland.is tekur eðlilega tíma að notkun hennar verði að fullu stafræn.
Meðfylgjandi tafla sýnir breytingu milli ára á greiðslum fyrir þjónustu sem er að finna á Ísland.is. Hlutfallið sýnir það sem greitt er fyrir hjá stofnun með handvirkum hætti, til dæmis gegnum posa eða með millifærslu, og greiðslur fyrir sömu þjónustu gegnum Greiðslukerfi Ísland.is.
Handskráðar greiðslur | Stafrænar greiðslur á Ísland.is | Samtals | Hlutfall Ísland.is | Aukning | |
2024 | 47.934 | 121.991 | 169.925 | 72% | 57% |
2023 | 42.931 | 65.424 | 108.355 | 60% | 121% |
2022 | 24.446 | 24.656 | 49.102 | 50% |
Heimagisting er dæmi um þjónustu sem hefur aldrei verið til á pappír og hefur þar af leiðandi verið 100% stafræn frá upphafi. Annað dæmi um stafræna þjónustu sem krefst greiðslu er sakavottorð en af þeim 16.717 sakavottorðum sem voru gefin út árið 2024 var afgreiðsla 88% að fullu sjálfvirk og stafræn.
Greiðsluþjónustan einfaldar líf þeirra sem þurfa að sækja um þjónustuna þar sem ekki lengur er þörf á því að mæta á staðinn til að greiða fyrir umbeðna þjónustu. Sömuleiðis er hagræðing innan stofnana í fækkun í afgreiðsla og að ekki þarf að bóka greiðslur eða gera afstemmingar milli reikninga.
Í dag er aðeins hægt að greiða fyrir þjónustu í gegnum Greiðslukerfi Ísland.is með greiðslukorti en unnið er að uppfærslu á kerfinu sem bætir við valmöguleikanum að fá greiðslukröfu senda í heimabanka. Áætlað er að sú uppfærsla fari í loftið á vormánuðum 2025.
Greiðslukerfi Ísland.is er samstarfsverkefni Fjársýslunnar og Stafræns Íslands.