8. nóvember 2024
8. nóvember 2024
Sjúkratryggingar ljúka samningsgerð vegna lýðheilsutengdra aðgerða
Sjúkratryggingar hafa lokið samningsgerð vegna lýðheilsutengdra aðgerða fyrir árið 2024. Samningarnir gilda til áramóta en samhliða er unnið að samningum til lengri tíma.
Lýðheilsutengdar aðgerðir eru ekki hluti af inngripum í fjölveikindi eða í bráðaástandi, heldur er um að ræða einskiptisaðgerð sem getur snúið viðkomandi einstaklingi aftur til heilsu og í samfélagslega virkni.
Samningarnir eru í takt við samþykkta heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og eru liður í því að tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Hér er um að ræða aðgerðir sem hafa mikil áhrif á lífsgæði fólks. Markmiðið sem unnið hefur verið eftir er að tryggja sjúklingum jafnt og tímanlegt aðgengi að mikilvægri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag.
segir Willum Þór heilbrigðisráðherra. Hann bendir jafnframt á að samningar um lýðheilsutengdar aðgerðir hafi nýst vel og stuðlað að skilvirkari nýtingu alls heilbrigðiskerfisins og mannauðsins sem þar starfar.
Á árinu 2024 var samið um kaup á samtals 710 liðaskiptaaðgerðum á bæði hné og mjöðm, 190 kviðsjáraðgerðum vegna endómetríósu, 138 bakaðgerðum vegna brjóskloss og þrenginga í mænugöngum og allt að 840 augasteinsaðgerðum. Aðilar að samningum Sjúkratrygginga vegna aðgerðanna eru Stoðkerfi ehf., Klíníkin ehf., Cosan ehf. og Lentis ehf.
,Við erum afar ánægð að hafa náð að klára þessa samninga. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fólk sem hefur verið á biðlista og beðið eftir þessum aðgerðum.
segir Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Samningar til lengri tíma í undirbúningi
Samhliða kaupum Sjúkratrygginga á lýðheilsutengdum aðgerðum fyrir árið 2024 hefur verið unnið að slíkum samningum til lengri tíma til að tryggja bæði jafnræði í aðgengi og samfellu í þjónustu. Lagt er upp með að þeir samningar taki við af núgildandi samningum um áramót og taki jafnframt til brjóstaminnkunaraðgerða og efnaskiptaaðgerða til viðbótar við þá aðgerðaflokka sem þegar hefur verið samið um. Stefnt er að samningum til þriggja ára til að tryggja fyrirsjáanleika og samfellu í þjónustu.