18. apríl 2024
18. apríl 2024
Hvað þarf ég að taka með mér í ferðalag til Evrópu?
Sumarið er handan við hornið og þá fara mörg að huga að ferðalögum til útlanda. Vegabréf, farmiði og gjaldeyrir eru þau atriði sem ekki má gleyma en Sjúkratryggingar vilja bæta einu atriði til viðbótar, sé ferðinni heitið til Evrópu.
Evrópska sjúkratryggingakortið, er það mikilvæga atriði. Kortið veitir aðgang að heilbrigðisþjónustu innan allra landa Evrópusambandsins, EFTA ríkjanna og Bretlands. Sé kortinu framvísað ásamt vegabréfi fæst þjónusta á sömu kjörum og gildir fyrir íbúa landsins sem heimsótt er.
Hvernig fæ ég kortið?
Það er auðvelt að sækja um evrópska sjúkratryggingakortið en það er gert á sjukra.is með rafrænum skilríkum. Að því loknu tekur það um 10-14 daga fyrir kortið að berast á lögheimili umsækjanda.
Ef kortið glatast eða gleymist heima er einfalt að fá sent rafrænt skjal (bráðabirgðavottorð) sem staðfestir að einstaklingur eigi gilt evrópskt sjúkratryggingakort. Sótt er um skjalið með rafrænum skilríkjum á sjukra.is og birtist það í rafrænu pósthólfi innan fárra mínútna.
Utan Evrópu
Sjúkratryggingar benda ferðalöngum á að huga að sérstökum ferðatryggingum sem gjarnan fylgja árgjöldum kreditkorta og sem einnig er hægt að kaupa hjá vátryggingarfélögum. Slík trygging getur verið mikilvæg á ferðalögum ef þörf er fyrir þjónustu sem evrópska sjúkratryggingakortið nær ekki til.
Þetta á við ef ferðinni er heitið til lands utan Evrópu, en þar er ekki hægt að nota evrópska sjúkratryggingakortið. Ef sérstök ferðatrygging er ekki fyrir hendi þarf almennt að greiða úr eigin vasa en hægt er að sækja um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga þegar heim er komið. Afgreiðsla endurgreiðslunnar er svo breytileg eftir hverju máli fyrir sig.
Sama fyrirkomulag er ef leitað er til einkarekinnar heilbrigðisþjónustu innan Evrópu. Evrópska sjúkratryggingakortið gildir aðeins hjá opinberum heilbrigðisþjónustuveitendum, ekki á einkastofum.
Ef um er að ræða alvarleg veikindi, til dæmis með sjúkrahúslegu og yfirvofandi mikinn kostnað er sjúkratryggðum einstaklingum bent á að hafa samband við Sjúkratryggingar.