17. október 2023
17. október 2023
Þjónustukönnun á heilsugæslustöðvum
Undanfarin ár hafa Sjúkratryggingar gert könnun á þjónustu heilsugæslu bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Tilgangur slíkrar könnunarinnar er að skoða hvað vel er gert og hvað má betur fara.
Nú er að fara af stað könnun á þjónustu allra heilsugæslustöðva á Íslandi. Tekið er slembiúrtak meðal þeirra sem sótt hafa þjónustu heilsugæslunnar á tímabilinu janúar til september árið 2023 og fá þeir sem lenda í úrtakinu send boð í tölvupósti um að taka þátt í könnuninni. Til að svara könnuninni þarf að skrá sig inn á Réttindagátt einstaklings á vef Sjúkratrygginga, rg.sjukra.is.
Spurt er um upplifun vegna síðustu heimsóknar, óháð því hvar hún fór fram á landinu. Í tilfellum barna sem sótt hafa heilsugæsluna fær elsti einstaklingurinn í fjölskyldunni boð um að taka þátt í könnuninni en mælst er til þess að sá aðili sem fór með barninu svari spurningalistanum.
Rannsóknarfyrirtækið Maskína sér um framkvæmd og úrvinnslu könnunarinnar fyrir hönd Sjúkratrygginga. Rétt er að árétta að niðurstöðurnar eru afhentar Sjúkratryggingum ópersónugreinanlegar, jafnvel þótt hlekkur sé sendur í gegnum Réttindagáttina.
Það er von Sjúkratrygginga og heilsugæslustöðva á Íslandi að sem flestir svari könnuninni því góð þátttaka gefur réttmætari niðurstöður.