Endurgreiðsla VSK til erlendra fyrirtækja
Erlend fyrirtæki geta fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem greiddur hefur verið hér á landi við kaup á vörum og þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar eða innflutning á vörum.
Ekki er endurgreitt vegna kaupa á vöru og þjónustu til endursölu og/eða endanlegrar neyslu hér á landi.
Endurgreiðslunum er hvorki ætlað að leiða til tvískattlagningar né engrar skattlagningar samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
Skilgreining á erlendum aðila
Erlent fyrirtæki telst vera aðili sem stundar atvinnurekstur og hefur hvorki búsetu, heimilisfesti né starfsstöð á Íslandi. Þó geta sum erlend fyrirtæki með starfsstöð hér á landi átt rétt til endurgreiðslu hafi starfsemi starfsstöðvarinnar ekki í för með sér skráningarskyldu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Einnig geta erlend fyrirtæki sem skráð eru einfaldri skráningu (VOES) átt rétt á endurgreiðslu.
Gögn með umsókn
Afrit sölureikninga, afrit annarra tekjuskráningargagna eða greiðsluskjala frá tollyfirvöldum þar sem fram kemur sá virðisaukaskattur sem umsækjandi hefur greitt.
Gögn sem lögð eru til grundvallar umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatt skulu uppfylla öll skilyrði um form og efni samkvæmt ákvæðum reglugerðar um bókhald og tekjuskráningu.Vottorð frá þar til bærum yfirvöldum í heimalandi umsækjanda þar sem fram kemur hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum. Vottorð af þessu tagi gildir í eitt ár frá útgáfudegi og þarf ekki að senda nýtt vottorð við síðari umsókn innan gildistíma þess.
Önnur gögn sem ríkisskattstjóri telur nauðsynleg til að sannreyna fjárhæðir á endurgreiðslubeiðni.
Umboð
Erlendu fyrirtæki er heimilt að fela umboðsmanni sínum að sækja um og veita viðtöku fyrir sína hönd endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt reglugerð þessari enda liggi fyrir að fyrirtækið hafi með ótvíræðum hætti veitt umboðsmanni sínum skriflegt umboð þar um.
Sé umboð veitt aðila búsettum erlendis, skal senda eyðublað RSK 10.36.
Meðfylgjandi eyðublaðinu skal fylgja afrit vegabréfa eða annarra persónuskilríkja þess aðila.
Þjónustuaðili
Skatturinn