Byggja og breyta
Sækja verður um byggingarleyfi þegar reisa á hús, endurbyggja, byggja við eða breyta. Ekki má hefja framkvæmdir fyrr en leyfi liggur fyrir.
Byggingarleyfi
Umsóknareyðublöð fyrir byggingarleyfi er að fá hjá byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags. Þau má líka víða nálgast á vefjum sveitarfélaganna.
Sveitarstjórnir veita byggingarleyfi að fengnu áliti byggingarnefnda og -fulltrúa sem hafa eftirlit með að öllum ákvæðum sé fylgt við byggingaframkvæmdir.
Dæmi um framkvæmdir sem verður að sækja um leyfi fyrir eru:
Breytingar á notkun húsa.
Sólpallar, heitir pottar og móttökudiskar.
Girðingar yfir vissri hæð og steyptir skjólveggir.
Ef fyrirhugaðar breytingar á notkun húsnæðis eða stækkun þess stangast á við gildandi deiliskipulag þarf skipulagsnefnd sveitarfélags að fjalla um umsóknina og getur það lengt afgreiðslu hennar umtalsvert.
Fyrir byggingarleyfi þarf að greiða byggingarleyfisgjald. Ýmis önnur gjöld eru lögð á vegna byggingaframkvæmda, svo sem gatnagerðargjöld og gjöld fyrir úttektir og vottorð.
Sé ágreiningur um afgreiðslu byggingarleyfisumsókna má skjóta málinu til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Annað
Lóðum til nýbygginga er úthlutað af sveitarfélögum sem hvert um sig setja sér reglur um lóðaveitingar.
Sækja verður um brunabótamat í síðasta lagi fjórum vikum eftir að nýtt húsnæði er tekið í notkun. Fyrsta mat er gjaldfrítt.
Hægt er að sækja um styrki vegna endurbóta og viðhalds húsa með varðveislugildi. Þeir eru veittir af Húsfriðunarsjóði, fjárlaganefnd og sumum sveitarfélögum.