
Áður en er byrjað
Um ferlið: Ferlinu er ætlað að styðja við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Það lýsir því hvernig skipuleggja megi tvo meginþætti hennar sem eru áhættumat og áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Ferlið á sér stoð í reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.
Um áætlun um öryggi og heilbrigði
Atvinnurekendur bera ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, án tillits til stærðar hans. Tilgangur hennar er að stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólks. Áætlunin á að gefa gott yfirlit yfir áhættur á vinnustað og hvernig hefur verið komið í veg fyrir eða dregið úr þeim með forvörnum eða hvernig stendur til að gera það.
Nánar um áætlun um öryggi og heilbrigði.
að fyrirbyggja og draga úr líkum á slysum, óhöppum, vanlíðan, álagi og langvarandi atvinnutengdum sjúkdómum.
að veita gott yfirlit yfir áhættur í vinnuumhverfinu og hvernig hefur verið eða verður brugðist við þeim.
að tryggja að forvarnir hafi tilætluð áhrif.
Áætlun um öryggi og heilbrigði er samvinnuverkefni atvinnurekenda, stjórnenda og starfsfólks á vinnustöðum. Starfsfólk þekkir störfin sín best og getur veitt mikilvægar upplýsingar um þær áhættur sem þeim tengjast.
Áætlun um öryggi og heilbrigði á að vera skrifleg, sett fram með skýrum hætti og á viðeigandi tungumáli svo öll á vinnustaðnum geti kynnt sér efni hennar. Áætlunin er lifandi skjal sem er í sífelldri endurskoðun og aðlöguð að breytingum hverju sinni.
Skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði er ekki aðeins formlegt skjal. Hún er lykilverkfæri atvinnurekenda og stjórnenda til að byggja upp heilbrigða vinnustaðamenningu þar sem áhersla er á öryggi og vellíðan starfsfólks. Rannsóknir sýna að árangursríkt vinnuverndarstarf hefur mikinn ávinning fyrir starfsfólk, stjórnendur og vinnustaðinn í heild. Ávinningur af gerð áætlunarinnar getur meðal annars verið:
Meira öryggi og færri slys Öflugar forvarnir, samvinna og ábyrgð dregur úr líkum á slysum, álagi og vanlíðan og tryggir að öll komi heil heim að vinnudegi loknum.
Betri líðan og aukin starfsánægja Starfsfólk upplifir meira öryggi og traust þegar atvinnurekendur setja öryggi og vellíðan þess í forgang og það finnur að það skiptir máli og hefur rödd.
Heilbrigð vinnustaðamenning Styður við opin og heiðarleg samskipti sem byggja á virðingu og trausti.
Aukin framleiðni og minni fjarvistir Heilbrigt vinnuumhverfi stuðlar að betri líðan og starfsánægju.
Jákvæð ímynd og orðspor Vinnustaðir sem hlúa að öryggi og vellíðan starfsfólks eru líklegri til að ráða og halda í hæfileikaríkt starfsfólk sem aftur hefur áhrif á árangur vinnustaða.
Áhættumat
Aðferð við gerð áhættumats er valfrjáls og vinnustaðir hafa svigrúm til að velja þá nálgun sem hentar þeirra starfsemi best. Ferlið hér að neðan gerir ráð fyrir því að vinnu við áhættumat sé skipt upp í tvö skref þar sem markmiðið er að finna þær áhættur sem geta valdið slysum, álagi og vanlíðan og meta líkur á að þeir raungerist.
Hér þarf að greina vinnuumhverfið og skoða hvernig störfin eru unnin til að meta áhættuna sem fylgir þeim fyrir starfsfólkið..
Fyrsta skrefið er því að kortleggja áhætturnar sem geta valdið slysum, óhöppum eða vanlíðan.
Gagnlegt er að skipta vinnuumhverfinu niður í smærri einingar eða eftir tegundum starfa sem unnin eru innan vinnustaðarins. Til dæmis er hægt að skipta vinnuumhverifnu niður í tiltekin vinnusvæði, deildir, verkþætti eða verkefni. Mælt er með að líta ávallt til fimm meginþátta vinnuverndar.
Markmiðið er ávallt að skoða hvort það er eitthvað við vinnuumhverfið, þar á meðal störfin eða verklag sem getur valdið slysum, ógnað heilsu starfsfólks eða valdið vanlíðan. Samvinna við starfsfólk er lykilþáttur því það þekkir vinnuumhverfið best og getur bent á sýnilegar og ósýnilegar áhættur.
Leiðbeiningar við greiningu á áhættu:
Brjóta vinnuumhverfið niður í smærri einingar.
Skrifa lýsingu á hverri einingu (hvað er verið að gera).
Greina hvaða áhættur geta fylgt starfinu.
Greina hverjir eru í hættu.
Ræða við starfsfólk því það þekkir vinnuumhverfið og störfin best.
Annað sem er gott að hafa í huga:
Huga þarf að öllum sem geta verið í hættu, þar með talið starfsfólk, gestir og þjónustunotendur.
Huga að áhættuhópum, þar með talið barnshafandi einstaklingum, ungu fólki, eldra fólki, erlendu starfsfólki og fólki með ólíka starfsgetu.
Gott að rýna í gögn - þar með talið yfirferð yfir fjarveruskráningar, slysaskýrslur og „næstum því“ slys eða óhöpp þar sem gögnin geta gefið innsýn inn í mögulegar áhættur.
Hér þarf að meta líkurnar á því að áhætturnar í vinnuumhverfinu raungerist og þá hversu alvarlegar afleiðingarnar yrðu. Þegar það liggur fyrir þarf að forgangsraða hvaða áhættur þarf að bregðast við fyrst í skrefi 3.
Gott að hafa í huga:
Ef vinnustaðurinn er breytilegur (til dæmis í mannvirkjagerð), þarf að endurmeta áhættuna eftir því sem verkefni þróast.
Skrá við upphaf áhættumatsins hvað teljast léttvægar afleiðingar og hvað telst alvarlegt tjón (auðveldar vinnu við skref 3).
Greina sérstaklega áhrif til skemmtri tíma og til lengri tíma. Dæmi: Ef verklag helst óbreytt er næstum því öruggt að starfsfólk fái einkenni frá stoðkerfi innan tveggja ára, þó líkur á einkennum í dag séu litlar.
Hvernig metum við áhættu? Aðferðin er valfrjáls en gott er að hugsa áhættu annars vegar út frá líkum á því að hún raungerist í vinnuumhverfinu og hins vegar út frá því hversu alvarlegar afleiðingarnar yrðu. Til eru ýmsar aðferðir við matið. Til dæmis litakóðað kerfi þar sem litirnir merkja forgangsröðun áhættunnar eða töflu sem gefur góða yfirsýn yfir áhætturnar.
Gagnlegt er að laga kerfið að stærð og eðli starfseminnar.
Áhættu er gott að hugsa út frá tveimur meginbreytum:
Afleiðingar: Hversu miklum skaða getur áhættan valdið?
Minniháttar / Grænt
Nokkuð alvarlegar / Gult
Mjög alvarlegar / Rautt
Líkur: Hversu líklegt er að áhættan raungerist?
Litlar líkur / Grænt
Meðal líkur / Gult
Miklar líkur / Rautt
Við forgangsröðun aðgerða þá er gott að hafa í huga:
Skrá niður áhætturnar og raða þeim í töflu eftir alvarleika og líkum.
Athuga hvort hægt sé að hanna áhættuna í burtu úr vinnuumhverfinu.
Ákveða hvaða áhættur þarf að vinna með áfram (í skrefi 3) með sérstökum forvarnaraðgerðum.
Með því að fara yfir og flokka áhætturnar skipulega verður auðveldara að taka ákvörðun um til hvaða forvarnaaðgerða skuli gripið í skrefi 3.
Áætlun um heilsuvernd og forvarnir
Eftir að áhættumat hefur verið gert er mikilvægt að vinna samantekt á áhættunum til að hafa betri yfirsýn. Síðan þarf að velja aðgerðir til að koma í veg fyrir áhættuna eða draga úr henni þannig að hafi óveruleg áhrif á starfsfólkið. Slíkar aðgerðir kallast forvarnir.
Markmiðið er alltaf að starfsfólk starfi við eins litla áhættu og kostur er.
Best er að grípa til allra nauðsynlegra forvarna þegar í stað. Komi hins vegar í ljó að ekki er unnt að bregðast við öllum áhættunum á sama tíma þarf að forgangsraða þeim. Mikilvægt er að bregðast fyrst áhættum sem eru líklegar að raungerist og geta valdið miklum skaða og svo koll af kolli.
Þegar búið er að ákveða til hvaða forvarna eigi að grípa og forgangsraða þeim þarf að skrá þær niður, tímasetja innleiðingu þeirra og tilgreina hver ber ábyrgð á því að fylgja innleiðingunni eftir.
Skref sem geta auðveldað vinnuna:
Útfæra skriflega áætlun um heilsuvernd og forvarnir; skilgreina hvaða skref þarf að taka til að draga úr áhættunum í vinnuumhverfinu.
Tímasetja aðgerðir; ákveða hvenær og hvernig verður brugðist við hverri áhættu fyrir sig.
Velja þann sem er ábyrgur fyrir innleiðingu forvarna.
Tryggja upplýsingamiðlun;skilgreina hvernig starfsfólk fær upplýsingar um framgang vinnunnar við gerð á áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnstöðum sem niðurstöður áhættumatsins og til hvaða forvarna þarf að grípa til að koma í veg fyrir áhætturnar. Einnig þarf áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað að vera aðgengileg öllu starfsfólki og hun kynnt sérstaklega þegar hún er tilbúin.
Hvernig er dregið úr áhættu?
Fyrsti kostur er ávallt að koma í veg fyrir áhættu eða fjarlægja hana til dæmis með því að hanna áhættuna burt.
Ef það er ekki hægt er gripið til almennra forvarna til að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólksins.
Þegar almennar forvarnir duga ekki til að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólksins þarf að grípa til sértækra öryggisráðstafana.
Gott er að hafa í huga:
Taka saman ábendingar frá starfsfólki um hvaða forvarnir það telur þurfa til þess að draga úr áhættunni við störf þess.
Ef hægt er að fjarlægja áhættuna alveg með til dæmis tæknilegum forvörnum, ætti það alltaf að vera fyrsti kosturinn.
Sniðmát fyrir áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað gefur innsýn inn í það hvernig hægt er að gera áhættumat fyrir vinnustaði en ver vinnustaður þarf að finna þá leið sem hentar honum.
Viðbrögð við einelti, áreitni og ofbeldi í vinnuumhverfinu
Við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði þarf að greina áhættuna fyrir óviðeigandi hegðun starfsfólks á vinnustað sem geti leitt til eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldi. Það getur tengst til dæmis stjórnun, skipulagi vinnustaðarins og samskiptavenjum. Áætlunin þarf einnig að fela í sér bæði viðbrögð vinnustaðar sem eiga að koma í veg fyrir einelti, hvers konar áreitni og ofbeldi inn á vinnustaðnum og viðbrögð komi slík hegðun upp.
Mikilvægt er að kynna sér efni reglugarðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi.
Í því felst meðal annars að:
gefa skýr skilaboð um að einelti, áreitni og ofbeldi verði ekki liðið í vinnuumhverfinu
innleiða aðgerðir sem fyrirbyggja hegðunina.
innleiða aðgerðir til að bregðast við ef mál koma upp.
Neyðaráætlun þarf að tilgreina viðbrögð við sértækum áhættum eins og eldsvoða, náttúruvá og alvarlegum veikindum eða slysum. Neyðaráætlun skiptist í slysaáætlun og rýmingaráætlun.
Slysaáætlun lýsir því hvernig bregðast eigi við slysum eða alvarlegum veikindum sem geta komið upp á vinnustaðnum, svo sem að veita fyrstu hjálp, hringja á Neyðarlínuna eða tryggja að nauðsynlegur búnaður sé tiltækur á vinnustaðnum, svo sem sjúkrakassi og slökkvitæki.
Rýmingaráætlun lýsir því hvernig bregðast eigi við alvarlegum atburðum eins og eldsvoða, leka hættulegra efna eða náttúruvá. Makrmiðið er að tryggja öruggan og skjótan brottflutning starfsfólks og annarra frá vinnustaðnum. Mikilvægt er að skilgreina flóttaleiðir og ákveða söfnunarstað þar sem öll eiga að hittast eftir rýminguna.
Mikilvægt er að kynna starfsfólki efni neyðaráætlunar og sjá til þess að viðbrögðin séu æfð reglulega. Þá aukast líkur á öruggum og réttum viðbrögðum þegar á reynir sem gæti bjargað mannslífum.
Hær má nálgast sniðmát fyrir neyðaráætlun sem sýnir hvernig hægt er að skrá niður skref fyrir skref röð aðgerða.
Áætlun um öryggi og heilbrigði er lifandi skjal sem þarf að endurskoða reglulega. Þá þarf að fara aftur yfir áhætturnar í vinnuumhverfinu til að kanna hvort þær hafi breyst. Á það til dæmis við verði breytingar á vinnuumhverfinu, eða slys eða næstum slys hefur orðið. Jafnframt þarf að meta hvort forvarnir hafi skilað tilætluðum árangri og hvort þær þjóni enn tilgangi sínum. Stundum getur þurft að grípa til nýrra forvarna eða endurnýja þær sem fyrir eru.
Ýmis hjálpargögn eru til sem geta auðveldað greiningu á áættuþáttum í vinnuumhverfinu og hjálpað til við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað.
Hér má til viðbótar nálgast frekara stoðefni sem nýtist stjórnendum við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði:
Hér má svo finna yfirlit yfir þau lög og reglugerðir sem hafa þarf í huga í vinnuverndarstarfinu:
Tökum höndum saman: Öll heil heim
Við erum allan daginnn að bregðast við áhættu í daglegu lífi til að fyrirbyggja slys og óhöpp. Við snúum hnífunum niður í uppþvottavélinni og setjum vetrardekk undir bílinn. Það sama ætti að gilda í vinnuumhverfinu eins og myndbandið hér að ofan sýnir.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið