Áætlun um heilsuvernd og forvarnir
Tímasett áætlun um forvarnir
Þegar áhættumat liggur fyrir þarf að gera tímasetta áætlun um forvarnir og ráðstafanir sem byggir á áhættumatinu.
Í áætluninni þarf að koma fram lýsing á hvernig áhættunni skuli mætt með til dæmis:
skipulagi vinnu
fræðslu
þjálfun
hönnun
vali á tækjum og búnaði
efnum eða efnablöndum
notkun öryggis- og hlífðarbúnaðar
Eins þarf að koma fram yfirlit yfir þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í.
Best er að "hanna hættuna burt" með því til dæmis að:
gera vinnu í hæð óþarfa eða hættuminni
skipta út einni hættu fyrir aðra sem er minna hættuleg
velja mild og umhverfisvæn efni í stað efna sem geta valdið starfsfólki eða umhverfinu skaða.
Forgangsraða aðgerðum út frá alvarleika áhættuþátta
Alvarleikinn er metinn út frá líkum á að eitthvað gerist og skaðanum sem yrði ef svo færi.
Bregðast þarf hratt við áhættuþáttum sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir starfsfólk og miklar líkur eru á að gerist.
Hugsanlega er hægt að gefa sér meiri tíma í úrbætur sem snúa að minna alvarlegum áhættuþáttum.
Þrjú stig forvarna:
1. stigs forvörn - fjarlægja hættu eða koma í veg fyrir hana. Hér er átt við að fjarlægja hættu í vinnuumhverfi áður en hættan veldur einkennum, slysum eða sjúkdómum. Til dæmis að hætta að nota tiltekna vél sem ógnar öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks.
2. stigs forvörn - draga úr hættu eins og hægt er. Ef ekki er hægt að fjarlægja hættu, sem miðar að því að koma í veg fyrir að hún valdi einkennum, slysum eða sjúkdómum þarf að gera almennar öryggisráðstafanir til verndar starfsfólki. Til dæmis að setja hlíf yfir sagarblað.
3. stigs forvörn - verja starfsfólk fyrir hættu. Ef ekki er hægt að fjarlægja hættu, eða verja starfsfólk fyrir henni með almennum ráðstöfunum þarf að grípa til sértækra öryggisráðstafana fyrir hvern og einn starfsmann svo sem að útvega persónuhlífar eða hjálpartæki. Til dæmis að útvega öndunargrímur ef unnið er í efnamengun.
Aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað
Aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað þurfa að vera hluti af áætlun um heilsuvernd og forvarnir.
Vinnustaðir þurfa að setja skýra stefnu um að slík hegðun sé ekki liðin og hafa áætlun um til hvaða aðgerða skuli gripið svo koma megi í veg fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað. Eins þarf að vera til áætlun um þær aðgerðir sem grípa skal til ef slíkt kemur upp á vinnustað.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið