Áætlun um heilsuvernd og forvarnir
Tímasett áætlun um forvarnir
Þegar áhættumat liggur fyrir þarf að gera tímasetta áætlun um forvarnir og ráðstafanir sem byggja á áhættumatinu.
Í áætluninni þarf að koma fram lýsing á hvernig áhættunni skuli mætt með til dæmis:
Hér að framan eru eingöngu nokkur dæmi um forvarnir á vinnustöðum en þær forvarnir sem gripið er til þurfa að draga úr áhættunni sem greind hefur verið á vinnustaðnum í áhættumatnu. Jafnframt þarf að koma fram yfirlit yfir þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í.
Forgangsröðun aðgerða út frá alvarleika
Alvarleiki er metinn út frá líkum á að eitthvað gerist og skaðanum sem yrði ef svo færi.
Bregðast þarf strax við áhættum sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir starfsfólk og miklar líkur eru á að gerist.
Skoða þarf áhættur sem tengjast þeim verkum sem unnin eru oft og með reglulegu millibili. Til dæmis daglega eða vikulega.
Sérstaklega þarf að skoða verk sem eru framkvæmd sjaldan eða með löngu millibili. Til dæmis árleg viðhaldsvinna á vélum eða tækjum.
Mögulega er hægt að gefa sér lengri tíma í forvarnir sem snúa að minna alvarlegum áhættum.
Þrjú stig forvarna:

1. stigs forvörn:
Fjarlægja eða koma í veg fyrir áhættu
Hér er átt við að fjarlægja áhættu úr vinnuumhverfi áður en hún veldur einkennum, slysum eða sjúkdómum. Til dæmis með því að yfirfara verkferla með það að markmiði að hætta notkun hættulegra efna, þungra hluta eða hættulegra verkfæra ef það er hægt. Ef um sérstaklega hættulega vinnu er að ræða er vert að spyrja fyrst hvort vinnan sé algjörlega nauðsynleg við þær aðstæður sem um ræðir.
2. stigs forvörn:
Grípa til almennra forvarnarráðstafana til að vernda starfsfólk
Ef ekki er hægt að fjarlægja áhættuna, þarf að gera almennar öryggisráðstafanir til að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks. Þær eru oft tæknilegar í eðli sínu en geta líka snúist um skipulag vinnunnar og þjálfun starfsfólks, svo sem regluleg hvíldarhlé, verkvíxlun og skýrar verklagsreglur og starfslýsingar. Hér er til dæmis átt við að koma fyrir hlífum eða ljósahliðum við hættulega vélahluti, staðbundið afsog til að fjarlægja gufur efna eða ryk ásamt því að uppfæra verklag. Hér undir falla líka tæknilegar ráðstafanir sem takmarka eða koma í veg fyrir að starfsfólk geti breytt eða hreyft við hættunni.
3. stigs forvörn:
Sértækar öryggisráðstafanir
Ef hvorki er hægt að fjarlægja áhættuna, eða grípa til almennra ráðstafanna sem duga til að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks þarf að grípa til sértækra öryggisráðstafana fyrir hvern og einn starfsmann svo sem að útvega léttitæki, persónuhlífar eða annan öryggisbúnað. Sem dæmi má nefna fallvarnarbelti, öndunargrímur eða tyllistóla
Áhrif forvarna minnka eftir því sem stig forvarna hækkar. Ávallt er árangursríkast að fjarlægja hættu ef mögulegt er.
Nánar um persónuhlífar
Persónuhlífar eru búnaður sem notaður er til að lágmarka áhrif af áhættum í vinnuumhverfinu.
Dæmi um persónuhlífar eru hanskar, öryggisgleraugu, heyrnahlífar, öndunar- og rykgrímur.
Áhættumeta þarf persónuhlífar út frá notkun þeirra og mögulegum skemmdum. Þjálfun í notkun persónuhlífa er mikilvæg ásamt eftirliti með ástandi þeirra. Til dæmis þarf að skipta reglulega út síum í öndunargrímum og huga að notkunartíma ásamt líftíma frá framleiðanda. Annað dæmi eru hjálmar en þeir hafa einungis ákveðinn líftíma. Fyrir hverja notkun þarf jafnframt að skoða mögulegar skemmdir og huga að geymslu þegar þeir eru ekki í notkun.
Ekki á að treysta persónuhlífum eingöngu og þær eru alltaf síðasti valkostur ef ekki er hægt að koma í veg fyrrir hættu með 1. eða 2. stigs forvörnum.
Persónuhlífar geta verið árangursríkar ef þær eru notaðar með réttum hætti. Persónuhlífar geta virst ódýr og einföld lausn til að verja starfsfólk en geta verið dýrari kostur ef til langs tíma er litið þar sem nauðsynlegt er að endurnýja hann með reglulegu millibili.
Aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað
Aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað þurfa að vera hluti af áætlun um heilsuvernd og forvarnir.
Vinnustaðir þurfa að setja skýr skilaboð um að slík hegðun sé ekki liðin og hafa áætlun um til hvaða aðgerða skuli gripið svo koma megi í veg fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað. Eins þarf að vera til áætlun um þær aðgerðir sem grípa skal til ef slík atvik koma upp á vinnustað.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið