Fara beint í efnið

Áætlun um heilsuvernd og forvarnir

Endurmat

Atvinnurekandi þarf að hafa eftirlit með því hvort þær ráðstafanir sem hann hefur gripið til í kjölfar áhættumats hafi haft tilætluð áhrif á öryggi og vellíðan starfsfólks og hvort frekari aðgerða sé þörf. Þar getur verið nauðsynlegt að skilgreina mælikvarða til að meta áhrifin en stundum stendur fólk í þeirri trú að eitthvað sé að skila árangri sem ekki er raunin þegar betur er að gáð. 

Atvinnurekandi verður jafnframt að endurskoða áhættumatið með reglulegu millibili þannig að það sé ávallt viðeigandi fyrir þær aðstæður sem eru á vinnustaðnum á hverjum tíma. Bæði áhættumat og áætlun um heilsuvernd og forvarnir þarf því stöðugt að endurskoða og aðlaga. 

Mælt er með að það sé gert að minnsta kosti árlega og eigi breytingar sér stað. 

Til dæmis ef:

  • breytingar verða í vinnuumhverfinu.

  • breytingar verða á framkvæmd vinnunnar, vinnutilhögun, framleiðsuaðferðum eða vinnsluferlum.

  • nýjar vinnustöðvar eru teknar í notkun.

  • ytri aðstæður vinnustaðar breytast.

  • hætta á heilsutjóni er meiri en áður hafði verið talið.

  • nýjar vélar eða tæknibúnaður er tekinn í notkun.

  • ný efni og efnablöndur eru teknar í notkun.

  • óhöpp eða slys verða.

  • ef upp kemur einelti, áreitni eða ofbeldi.

Mikilvægt er að atvinnurekendur fylgist vel með að þær forvarnir sem eiga að vera til staðar séu enn viðeigandi og hafi tilætluð áhrif. Forvarnir eldast og úreldast eins og annað.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið