Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Áætlun um öryggi og heilbrigði

Í stuttu máli

Allir atvinnurekendur bera ábyrgð á að gerð sé áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, óháð stærð. Hún felur í sér áhættumat og áætlun um heilsuvernd og forvarnir.

Áætlunin er grunnur að góðu vinnuverndarstarfi. Henni er ætlað að stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólks.

  • Áætlunin á að vera skrifleg. Framsetning hennar þarf að vera skýr og aðgengileg fyrir stjórnendur og starfsfólk. 

  • Áætlunin gefur gott yfirlit yfir áhættur á vinnustað og hvernig hefur verið komið í veg fyrir eða dregið úr þeim með forvörnum. Þegar grípa þarf til forvarna á vinnustaðnum skulu þær vera tímasettar í áætluninni.  

  • Áætlunin er lifandi skjal sem þarf að endurskoða reglulega og þegar aðstæður breytast. Eins þarf að meta árangur aðgerða. 

  • Atvinnurekandi þarf að sjá til þess að áætluninni sé framfylgt í daglegum rekstri þannig að vinnuverndarstarfið sé órjúfanlegur þáttur í starfseminni. Það er er lykillinn að því að geta stuðlað að öryggi og vellíðan starfsfólks í vinnuumhverfinu. 

Hlutverk og ábyrgð

Atvinnurekandi ber ábyrgð á að áætlunin sé gerð og að henni sé fylgt eftir. Starfsfólk þarf að vera reiðubúið að taka þátt í gerð hennar sé þess óskað. Mælt er með að gerð áætlunarinnar og innleiðing hennar sé samvinnuverkefni atvinnurekenda, stjórnenda og starfsfólks.

Vinnustaðir þurfa að innleiða menningu þar sem áhersla er á vellíðan og öryggi starfsfólks og að vinnuverndarstarfið sé hluti af daglegri starfsemi. Það krefst þátttöku allra sem þar starfa og þurfa stjórnendur að ganga á undan með góðu fordæmi. Þannig eru mestar líkur á að árangur náist.

Við gerð áhættumats ber atvinnurekanda að greina áhætturnar í vinnuumhverfinu. Mælt er að með að hafa samráð við starfsfólkið því það þekkir störf sín og getur komið með góðar tillögur að því hvernig megi draga úr áhættum.
 
Starfsfólki ber að upplýsa atvinnurekanda, öryggisvörð eða öryggistrúnaðarmann taki það eftir einhverju á vinnustaðnum sem getur ógnað öryggi eða heilsu starfsfólks. Það ber einnig ábyrgð á að takmarka áhættuna í vinnuumhverfi sínu við dagleg störf.  

Þegar gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað krefst færni sem atvinnurekandi, stjórnendur eða starfsfólk hefur ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita aðstoðar  viðurkenndra þjónustuaðila.

Ef atvinnurekandi nýtir þjónustu viðurkennds þjónustuaðila ber hann engu að síður ábyrgð á að áætlunin sé gerð og henni fylgt eftir. 

Aðgengi að áætlun

Áætlunina þarf að kynna fyrir öllu starfsfólki og á ávallt að vera aðgengileg stjórnendum og starfsfólki. Mælt er með að vinnustaðir skoði hvort þörf sé á að hafa hana aðgengilega á öðrum tungumálum en íslensku til að tryggja að öll á vinnustaðnum geti kynnt sér hana.  Vinnueftirlitið óskar eftir áætluninni í vettvangsheimsóknum og stafrænum samskiptum.

Hvernig er áætlunin gerð?

Fyrst þarf að greina og meta áhættur í vinnuumhverfinu og gera skriflegt áhættumat sem fjallar um hverjar áhætturnar á vinnustaðnum eru. Atvinnurekanda ber að horfa heildstætt á alla þætti starfseminnar og vinnuumhverfisins. Þá er gott að styðjast við fimm meginþætti vinnuverndar, og sértækar áhættr ef við á. Mælt er að með að hafa samráð við starfsfólkið því það þekkir vel störf sín og getur komið með góðar hugmyndir til að draga úr áhrifum áhættunnar. Síðan er gerð tímasett áætlun um heilsuvernd og forvarnir sem er skrifleg áætlun um hvernig koma megi í veg fyrir áhætturnar. Sé það ekki hægt þarf að koma fram hvernig skuli draga úr þeim eins og frekast er kostur. 

Ferli við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði

Hér að neðan má finna yfirlitsmynd af ferli sem styður atvinnurekendur við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. Það hjálpar til við að skipuleggja tvo meginþætti áætlunarinnar, sem eru áhættumat og áætlun um heilsuvernd og forvarnir, í samræmi við reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.

Fellirit_isl

Vinnuefirlitið hvetur atvinnurekendur til kynna sér ferlið til stuðnings við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði.

Endurskoðun áætlunar

Áætlunina þarf að endurskoða reglulega í samvinnu atvinnurekanda, stjórnenda og starfsfólks. Til dæmis þegar atvik, slys, óhöpp eða breytingar á vinnuaðstæðum eiga sér stað. Þá þarf að meta hvort þær forvarnaraðgerðir sem gripið hafi verið til skili enn tilætluðum árangri til varnar þeirri áhættu sem þeim er ætlað að koma í veg fyrir eða draga úr. Í því sambandi þarf að hafa í huga að forvarnir geta breyst eða úrelst með tímanum.  

Öll heil heim

Við erum allan daginnn að bregðast við áhættu í daglegu lífi til að fyrirbyggja slys og óhöpp. Við snúum hnífunum niður í uppþvottavélinni og setjum vetrardekk undir bílinn. Það sama ætti að gilda í vinnuumhverfinu eins og myndbandið hér að ofan sýnir.

Vinnueftirlitið hvetur stjórnendur og starfsfólk til að opna samtal um öryggi og vellíðan á vinnustöðum, sama hvers eðlis starfsemin er. Förum yfir áhættur, skrifum þær niður og ákveðum hvernig við ætlum að fyrirbyggja þær.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið