Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Umhverfis- og loftslagsstefna

Vinnueftirlitið tekur virkan þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og leitast við að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni í lágmarki.

Framtíðarsýn

Vinnueftirlitið er til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum. Stofnunin tekur virkan þátt í baráttunni við loftlagsbreytingar og heldur neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi hennar í lágmarki. Stofnunin uppfyllir sinn hlut til að skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu verði náð. Þannig leggjum við grunninn að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.

Vinnueftirlitið er eftirsóknarverður vinnustaður sem leggur áherslu á sjálfbærni í þeim tilgangi að auðga lífsgæði fólks án þess að rýra möguleika komandi kynslóða. Mikilvægt er að stuðla að vellíðan starfsfólks og jákvæðri starfsþróun þess þannig að það geti lokið starfsævinni án skertrar starfsgetu í heilbrigðu umhverfi. Það að hlúa að umhverfinu með því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum er mikilvægur þáttur í þeirri vegferð.

Vinnueftirlitið tryggir að lagalegum kröfum sem tengjast starfsemi hennar sé fylgt og vinnur að stöðugum umbótum á umhverfisstarfi stofnunarinnar. Stofnunin hefur kröfur ISO 9001 og ISO 14001 um gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi til hliðsjónar og leggur þær til grundvallar í allri vinnu.

Yfirmarkmið

Vinnueftirlitið ætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) um 50% fyrir árið 2030 miðað við árið 2019. Stofnunin stefnir einnig að kolefnishlutlausri starfsemi með því að kolefnisjafna alla eftirstandandi losun frá árinu 2019.

Þessu markmiði verður náð með því að minnka orkunotkun um 5%, draga úr flugferðum starfsfólks, bæði innan lands og ferðir erlendis um 20% ásamt því að endurskoða innkaupin, draga úr úrgangi um 20% og vegasamgöngum um 56%.

Enn fremur er markmiðið að tryggja virka þátttöku stofnunarinnar í baráttunni við loftlagsbreytingar og fræða starfsfólkið um mikilvægi framlags þess við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá rekstri hennar. Þannig hlúum við að framtíðinni og stuðlum að velferð og vellíðan vinnandi fólks.

Einnig er viðbúið að virkt umhverfisstarf styrki ímynd Vinnueftirlitsins sem góður vinnustaður þar sem starfsfólk ber umhyggju fyrir nánasta umhverfi sínu um leið og áhrif þess gætir víða.

Gildissvið

Stefna þessi tekur til umhverfisáhrifa af rekstri Vinnueftirlitsins og varðar allt starfsfólk stofnunarinnar. Stofnunin er með 9 starfsstöðvar sem staðsettar eru í Reykjavík, Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Selfossi og Reykjanesbæ. Umhverfis- og loftlagsstefnan nær yfir allar starfsstöðvarnar.

Umfang

Umhverfis- og loftslagsstefna Vinnueftirlitsins fjallar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt leiðbeiningum um loftslagsstefnu opinberra aðila en jafnframt um umhverfisáhrif stofnunarinnar almennt. Stefnan tekur til eftirfarandi umhverfisþátta sem unnt er að fylgjast með og mæla hverju sinni:

Samgöngur

Stefna Vinnueftirlitsins er að draga úr losun GHL vegna samgangna á vegum og í lofti en ljóst er að losun GHL frá ökutækjum hér á landi þarf að dragast verulega saman. Í þeim tilgangi leggur Vinnueftirlitið áherslu á að hraða orkuskiptum á bifreiðum sínum frá jarðefnaeldsneyti til umhverfisvænni orkugjafa, svo sem rafmagnsbíla. Hið sama gildir um losun frá bílaleigu- og leigubílum á vegum stofnunarinnar en leitast er við að nýta sér þjónustu þeirra sem hafa sem minnsta losun GHL.

Enn fremur leggur Vinnueftirlitið aukna áherslu á fjarfundi starfsfólks milli starfsstöðva þess sem og vegna funda við utanaðkomandi aðila innan lands sem utan. Þannig kanni starfsfólk ávallt möguleikann á að taka þátt í fundum í fjarfundi og fundir erlendis verði einungis sóttir ef hagsmunir íslenskra stjórnvalda krefjist þess. Vinnueftirlitið gætir þess að hafa ávallt góðan fjarfundarbúnað tiltækan fyrir starfsfólk þess. Með þessu móti verður dregið úr losun GHL vegna flugferða starfsfólks innan lands sem utan þess.

0rkunotkun

Stefna Vinnueftirlitsins er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum með því að draga úr notkun á rafmagni og heitu vatni á öllum starfsstöðvum sínum. Við fylgjumst reglulega með orkunotkun okkar, höfum hreyfiskynjara í rýmum þar sem viðvera er lítil og gætum þess að tölvur, skjáir og prentarar fari í svefnham að lokinni notkun. Við höfum komið á reglulegu eftirliti með stillingu á loftræstingu og ofnum.

Starfsfólk er hvatt til að huga vel að orkunotkun sinni og gæti þess að slökkva ljós í rýmum sem eru ekki í notkun og við lok dags. Það er gert með áminningarmiðum við rofa og valdar útgönguleiðir ásamt reglulegum áminningum til starfsfólks.

Regluleg fræðsla er viðhöfð fyrir starfsfólk um ávinning þess að spara orku og aðferðir til þess, svo sem til að fyrirbyggja of hátt stillta ofna á sumrin og varðveita innihita á veturna.

Úrgangur

Stefna Vinnueftirlitsins er að draga úr úrgangi frá allri starfsemi og leggur áherslu á fræðslu til að koma í veg fyrir óþarfa úrgang ásamt því að flokka allan úrgang sem er óhjákvæmilegur. Markmiðið er að 70% af úrgangi verði flokkaður til endurnotkunar og endurvinnslu í árslok 2023 en það hlutfall var 64% í desember 2021.

Við bjóðum einungis upp á margnota ílát í kaffistofum og matsal. Við gerum starfsfólki kleift að flokka allan úrgang sem til fellur í daglegu starfi á starfsstöðvum í þar til gerð merkt flokkunarílát og starfsfólk skal forðast að nota einnota ílát.Vinnueftirlitið hefur innleitt rafrænt skjalavistunarkerfi og fengið heimild Þjóðskjalasafns til að skila gögnum rafrænt til þess. Við sendum bréf eingöngu rafrænt til viðskiptavina okkar og hvetjum viðskiptavini okkar til að eiga rafræn samskipti við okkur.

Við höfum innleitt rafræna aðgangsstýringu að prenturum og hvetjum fólk til að takmarka útprentun eins og frekar er kostur.

Við bjóðum starfsfólki fræðslu um mikilvægi endurvinnslu. Við bjóðum starfsfólki að endurnýta húsgögn og annan búnað sem stofnunin hefur ekki lengur not fyrir og ekki er unnt að endurselja. Við hvetjum jafnframt til þess að starfsfólk bjóði samstarfsfélögum sínu að endurnýta hluti sem það er hætt að nota, svo sem bækur og húsgögn.

Innkaup

Innkaupastefna Vinnueftirlitsins gerir kröfur um að ávallt séu valdar vörur og þjónusta sem skynsamlegt er að velja með tilliti til lágrar losunar GHL en þannig aukum við hlut umhverfisvottaðra vara. Draga skal úr óþarfa innkaupum og ávallt velja margnota vörur í stað einnota ef þess er nokkur kostur. Kaupa skal inn hreinsivörur sem eru umhverfisvottaðar. Við val á ráðstefnu- og gistirýmum skal velja þá sem hafa umhverfisvottun, sé þess kostur.

Vinnueftirlitið býður ávallt upp á streymi frá öllum viðburðum sem haldnir eru á vegum þess fyrir þá sem það kjósa og er efnið áfram aðgengilegt á vef stofnunarinnar.

Innra starf

Í öllu starfi Vinnueftirlitsins verður unnið gegn viðhorfum sem leiða til neikvæðra umhverfisáhrifa frá rekstri stofnunarinnar eða vinna gegn skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu. Umhverfis- og loftlagsmál og leiðir til að stuðla að því að dregið verður úr neikvæðum umhverfisráhrifum verða virkir þættir í daglegu starfi Vinnueftirlitsins og hafa áhrif á ákvarðanir í öllu innra starfi stofnunarinnar. 

Áherslur í umhverfis- og loftslagsmálum

  • Drögum úr losun GHL vegna samgangna, úrgangs og orkunotkunar

  • Aukum hlutfall fjarfunda

  • Drögum úr úrgangsmyndun og aukum endurvinnslu

  • Spörum orku

  • Fræðum starfsfólk um innra umhverfisstarf og önnur umhverfismál

  • Gerum umhverfisvæn innkaup

  • Fylgjum Grænum skrefum

  • Kolefnisjöfnum losun okkar með ábyrgum hætti

  • Kynnum okkur tæknilegar lausnir sem gerir starfsemina umhverfisvænni

Kolefnisjöfnun

Mat á koltvísýringsfótspori stofnunarinnar, sem reiknað er í CO2 ígildum, er lagt til grundvallar aðgerðum og umfangi aðkeyptrar kolefnisjöfnunar. Vinnueftirlitið mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig að kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á viðurkenndum kolefniseiningum.

Eftirfylgni

Vinnueftirlitið hefur sett sér aðgerðaráætlun í umhverfis- og loftlagsmálum til þriggja ára sem verður endurskoðuð árlega. Í aðgerðaráætluninni eru sett fram markmið og aðgerðir sem falla að þeim áherslum sem stofnunin hefur sett sér á sviði umhverfis- og loftslagsmála til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) ásamt því að draga úr öðrum neikvæðum umhverfisáhrifum.

Í því felst meðal annars að Vinnueftirlitið haldi grænt bókhald þar sem teknir eru saman þýðingarmestu þættir í rekstri stofnunarinnar sem hafa áhrif á umhverfið. Niðurstöður bókhaldsins eru notaðar til að móta stefnu og aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum.Fyrir 1. apríl ár hvert er grænt bókhald fyrra árs tekið saman og því skilað í Gagnagátt Umhverfisstofnunar. Svið rekstrar og þróunar sér um að taka bókhaldið saman í samstarfi við umhverfisteymi stofnunarinnar. Umhverfis- og loftslagsstefnan er rýnd árlega af umhverfisteyminu ásamt aðgerðaráætlun þegar niðurstöður græns bókhalds liggja fyrir og leggur fyrir framkvæmdastjórn. Skal jafnframt fara fram rýni stjórnenda sem fer fram í framkvæmdastjórn.

Niðurstöðum Græns bókhalds og árangri umhverfis- og loftslagsstefnu Vinnueftirlitsins er miðlað á vef stofnunarinnar og í rafrænni ársskýrslu stofnunarinnar ár hvert. Þá birtast niðurstöður græns bókhalds á heimasíðu Grænna skrefa ásamt niðurstöðum annarra ríkisstofnana.

Stefnan var samþykkt í framkvæmdastjórn Vinnueftirlitsins 8. september 2022.