Vinnueftirlitið þróast í takt við örar breytingar á vinnumarkaði. Ný framtíðarsýn og stefna tók gildi 1. janúar 2023.
Stefnan var unnin í víðtæku samráði við hagsmunaaðila, fagráðuneyti, starfsfólk og stjórnendur stofnunarinnar. Stefnan gildir út árið 2028.
Framtíðarsýn til ársins 2028
Öflugt vinnuverndarstarf
Með öflugu vinnuverndarstarfi, sem er í stöðugri þróun í takti við örar breytingar á vinnumarkaði, hefur Vinnueftirlitið stuðlað að bættri vellíðan, heilsu og öryggi starfsfólks.
Samstarf atvinnurekenda og starfsfólks
Árangursríkt vinnuverndarstarf er samstarfsverkefni atvinnurekenda og starfsfólks við að viðhalda og bæta öryggi og aðbúnað á vinnustöðum og þannig er komið í veg fyrir vinnuslys, óhöpp og vanlíðan starfsfólks.
Góðar upplýsingar
Góð heilsa skilar atvinnulífinu aukinni framleiðni og samfélaginu ávinningi. Áreiðanlegar upplýsingar og greining gagna um þróun helstu áhættuþátta í vinnuumhverfi gerir okkur kleift að forgangsraða í eftirliti, forvarnarstarfi og upplýsingamiðlun.
Umbætur
Nýsköpun, umbætur og einföldun eru lykilatriði í okkar starfi og við höfum verið leiðandi í að benda á aðferðar, bæði nýjar og þekktar, til að bæta vinnuvernd á vinnustöðum.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Við val á aðgerðum til að koma áherslum stefnunnar í framkvæmd verður horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Fimm meginmarkmið
Stefna Vinnueftirlitsins er byggð upp í kringum fimm meginmarkmið. Hvert og eitt þeirra á að stuðla að langtímaumbótum og jákvæðum breytingum til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika. Þau eru: vellíðan, öryggi, þátttaka, aðlögun og einföldun.
Draga úr fjarveru fólks frá vinnu með aukinni vinnuvernd.
Efna til almennrar umræðu um mikilvægi góðrar vinnustaðamenningar, þar á meðal samskipti á vinnustöðum, í síbreytilegu umhverfi, til að stuðla að vellíðan og koma í veg fyrir neikvæð samskipti svo sem áreitni, ofbeldi og einelti.
Draga úr vinnutengdum stoðkerfisvanda en stoðkerfisvandi er önnur helsta orsök örorku hér á landi.
Auka vitund almennings um vinnutengda kulnun starfsfólks og hvernig megi fyrirbyggja hana.
Við viljum stuðla að góðri heilsu og vellíðan starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði með fræðslu, öflugu forvarnarstarfi og áhættumiðuðu eftirliti.
Sjá heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 3, 5, 8 og 10.
Stuðla að nýsköpun á sviði vinnuverndar, svo sem með stafrænum ferlum og verkfærum og miðlun á fræðslu.
Fækka vinnuslysum á innlendum vinnumarkaði með markvissum forvörnum.
Efla vitund einstakra hópa á vinnumarkaði um vinnuvernd, svo sem starfsfólks sem skilur ekki íslensku, ungs fólks og starfsfólks er sinnir áhættusömum störfum.
Skapa umræðuvettvang fyrir framsýna og málefnadrifna umræðu um vinnuvernd í mannvirkjagerð í víðum skilningi.
Miðla orsökum vinnuslysa og þróun þeirra til hagsmunaaðila svo hægt sé að bregðast við hratt og örugglega.
Við fylgjumst með skipulagi öryggismála á vinnustöðum, vinnuvélum og notkun hættulegra efna og berum kennsl á helstu áhættuþætti í umhverfinu.
Sjá heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 3, 8 og 10.
Styðja og hvetja vinnustaði landsins til að koma á kerfisbundnu vinnuverndarstarfi sem byggist á samvinnu atvinnurekenda, stjórnenda og starfsfólks.
Stuðla að þátttöku allra á vinnustaðnum, þ.e. atvinnurekanda, stjórnenda og starfsfólks, í virku vinnuverndarstarfi þar sem allir axla ábyrgð á góðri vinnuvernd og vellíðan á vinnustaðnum.
Hvetja vinnustaði til að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði sem tekur á öllum fimm meginstoðum vinnuverndar.
Hvetja til samfélagslegrar umræðu um mikilvægi vinnuverndar þannig að stuðlað sé að jákvæðri ímynd og viðhorfi almennings til vinnuverndarstarfs.
Auka samstarf við háskólasamfélagið og aðrar rannsóknarstofnanir um rannsóknir á sviði vinnuverndar.
Við hvetjum vinnustaði til þátttöku í kerfisbundnu vinnuverndarstarfi enda leiði góð vinnustaðamenning og heilsusamlegt umhverfi til samfélags- og fjárhagslegs ávinnings fyrir okkur öll.
Sjá heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 3 og 10.
Meta og bregðast við áhrifum aukinnar tæknivæðingar á vinnuumhverfið, bæði jákvæð og neikvæð áhrif, svo sem að starfa með vélum og vélmennum, einföldun starfa og einhæfing.
Meta áhrif samblands fjarvinnu og vinnu á vinnustað á vinnuvernd starfsfólks (e. hybrid labour market).
Meta áhrif aukinnar kröfu um veitingu heilbrigðis- og félagsþjónustu á einkaheimilum notenda á vinnuvernd starfsfólksins.
Efla samtal við hagaðila, þ.á m. aðila vinnumarkaðarins, um vinnuvernd þeirra sem sinna netvangsstörfum (e. platform workers) og þeirra er starfa í öðrum löndum en vinnuveitandi þeirra hefur staðfestu í.
Hvetja til umræðu um umhverfisáhrif af notkun vinnuvéla og tækja ásamt mikilvægi vinnuverndar þeim tengdum á vinnustöðum og hvetja til notkunar á umhverfisvænum vinnuvélum og tækjum.
Við sjáum fyrir okkur mun örari breytingar á vinnumarkaði á næstu árum sem munu hafa áhrif á starfsumhverfi fólks og vinnuaðferðir og horfa þarf til vinnuverndarsjónarmiða í ljósi þess.
Sjá heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 3 og 10.
Efla þróun stafrænna þjónustuferla sem bæta þjónustu og notendaupplifun þar sem upplýsingatæknin er nýtt á skilvirkan hátt til að auka gæði og áreiðanleika.
Efla eftirlit stofnunarinnar með einföldun og þróun ferla, nýsköpun og nýtingu á tækni, svo sem stafrænt eftirlit, í samræmi við góða stjórnsýslu.
Koma á auknu faglegu samstarfi þvert á stofnunina og efla faglega verkefnisstjórnun.
Efla gæði eftirlitsskoðana og eftirfylgni gagnvart vinnustöðum.
Við vinnum markvisst að því að samræma verkferla, efla gæði og einfalda nálgun okkar og samskipti út á við með stafrænum leiðum og með þverfaglega nálgun að leiðarljósi.
Sjá heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 9.