Vinnueftirlitið á Verk og vit
18. apríl 2024
Vinnueftirlitið tekur þátt í Verk og vit 2024. Markmiðið með þátttökunni er að vekja athygli á mikilvægi vinnuverndar.
Vinnueftirlitið tekur þátt í sýningunni Verk og vit sem opnaði í Laugardalshöll í dag og stendur opin til sunnudagsins 21. apríl. Sýningin er ætluð þeim sem koma að bygginga- og mannvirkjagerð á ýmsum stigum svo sem sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar-, hugbúnaðar- og þjónustufyrirtækjum, menntastofnunum, hönnuðum og ráðgjöfum.
Markmið Vinnueftirlitsins með þátttökunni er að vekja athygli á mikilvægi vinnuverndar. Gestir og gangandi eru hvattir til að líta við í básnum og fræðast um vinnuvélaréttindi, heilbrigða vinnustaðamenningu, góða líkamsbeitingu í mannvirkjagerð, öryggi við jarðvegsvinnu, vinnuslys og tilkynningar á þeim, gerð áhættumats eða hvað eina sem brennur á þeim tengt vellíðan og öryggi á vinnustað.