Varúðarráðstafanir við geymslu eldsneytis á vinnustöðum
17. febrúar 2023
Vinnueftirlitið vekur athygli atvinnurekenda á að eldsneyti, svo sem bensín eða díselolía, flokkast sem hættulegt efni og um meðferð hættulegra efna á vinnustöðum gilda ákveðnar reglur sem þarf að hafa í huga til að tryggja öryggi starfsfólks.
Hafi atvinnurekendur keypt eldsneyti umfram það sem venja er vegna verkfalls olíubílstjóra og sett til dæmis í brúsa eða önnur ílát þarf að huga að eftirfarandi við geymslu þess og förgun.
Helstu hættur sem tengjast eldsneyti eru:
Eldsneyti er eldfimt og við tilteknar aðstæður þarf mjög lítinn neista til að valda íkveikju. Sum plastefni hlaða upp stöðurafmagni við núning þannig að neisti sem dugar til að kveikja í eldsneytinu getur myndast í sumum plastbrúsum. Eins getur neisti myndast frá sumum fatnaði. Ef eldsneyti lekur úr umbúðum gufar það upp og ef geymslan er illa loftræst getur myndast sprengifimt andrúmsloft sem getur valdið sprengingu við minnsta neista, til dæmis frá rofa ef ljós er kveikt eða ef ísskápur fer í gang. Eldsneyti á því einungis að geyma í umbúðum sem hafa verið vottaðar til þess.
Eldsneyti er rokgjarnt sem þýðir að það myndar gufur sem geta, ef styrkur er nægjanlegur, valdið starfsfólki heilsutjóni eða í það minnsta óþægindum. Ef rokgjörn efni hitna eykst uppgufun þannig að þrýstingur getur myndast í lokuðum umbúðum sem gæti valdið því að umbúðir rofna. Eins er hætta á að það slettist úr þeim þegar þær eru opnaðar.
Eldsneyti getur valdið mikilli umhverfismengun og því ber að varast að það komist í niðurföll.
Tóm ílát með leifum af eldsneyti geta ekki síður verið hættuleg en full, en loft og eldsneytisgufur geta myndað sprengifima blöndu. Tómum umbúðum ætti því að koma strax í viðeigandi förgun.
Gætum því vel að geymslu eldsneytis og tryggjum að öll komi heil heim.