Rafmagnshlaupahjól eiga að vera CE-merkt
15. mars 2021
Innflutningur á rafmagnshlaupahjólum hefur aukist jafnt og þétt og eru hjólin orðin vinsæll fararkostur margra víða um land. Sala á slíkum hjólum er orðin umtalsverð og er hægt að fá þau frá hinum ýmsu framleiðendum. Mikilvægt er að tryggja öryggi notenda eins og kostur er og hvílir rík skylda á herðum innflytjenda í þeim efnum.
Innflytjendur þurfa að tryggja að þau rafmagnshlaupahjól sem flutt eru inn til landsins séu CE merkt. CE-merking gefur til kynna að framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili vöru ábyrgist að hún uppfylli grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði. Um er að ræða kröfur sem eru samræmdar á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins og byggjast á tilskipunum Evrópusambandsins.
Vinnueftirlitið vill benda innflytjendum rafmagnshlaupahjóla á að þeir þurfa meðal annars að geta sýnt fram á gilda samræmisyfirlýsingu framleiðanda fyrir hjólin sem þeir flytja inn og þurfa þau í öllum tilfellum að vera CE merkt. Stofnunin hefur eftirlit með að svo sé.
Reynslan hefur sýnt að það er ákveðin slysahætta af rafmagnshlaupahjólum og verða slys í tengslum við akstur þeirra bæði hér heima og erlendis á ári hverju. Þó slysin séu oftar en ekki tengd hegðun ökumanna og annarra í umferðinni þá hafa einnig orðið slys vegna framleiðslugalla og er það á ábyrgð innflytjenda að tryggja að þau hjól sem eru á markaði uppfylli grunnkröfur um öryggi og heilbrigði.
Að sama skapi hvetur Vinnueftirlitið neytendur að ganga úr skugga um að rafmagnshlaupahjólin sem þeir ætla að kaupa séu CE merkt sem gefur til kynna að þau uppfylli þær grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði sem gerðar eru til þeirra.