Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Óskað eftir umsóknum um styrki í Vinnuverndarsjóð

12. febrúar 2025

Vinnueftirlitið óskar eftir umsóknum um styrki í Vinnuverndarsjóð. Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir á sviði vinnuverndar og stuðla að bættri vinnuvernd á íslenskum vinnumarkaði.

tilkynna

Vinnuverndarsjóður er samstarfsverkefni félags- og húsnæðismálaráðuneytisins og Vinnueftirlitsins. Honum er ætlað að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla rannsóknir á sviði vinnuverndar og stuðla að bættri vinnuvernd á íslenskum vinnumarkaði. Fyrstu styrkir úr sjóðnum voru veittir árið 2024.

Frestur til að skila inn umsóknum í sjóðinn er til fimmtudagsins 27. mars næstkomandi. Stefnt er að úthlutun styrkja í apríl 2025.

Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér nánar reglur um úthlutun styrkja úr Vinnuverndarsjóði en við mat á umsóknum verður einkum litið til verkefna og rannsókna er varða tengsl einstakra sjúkdóma og vinnutengdra einkenna við vinnuumhverfi.

Styrkhæfar umsóknir eru einnig verkefni og rannsóknir er varða:

  • samfélagslegan og efnahagslegan ávinning af vinnuvernd

  • orsakir, tíðni og þróun vinnuslysa í ákveðnum starfsgreinum

  • jákvæða ímynd og viðhorf almennings til vinnuverndar

  • vitundarvakningu einstakra hópa á vinnumarkaði um vinnuvernd, svo sem starfsfólks sem skilur ekki íslensku, ungs fólks og starfsfólks er sinnir áhættusömum störfum.

  • þekkingu á mikilvægi góðrar vinnustaðamenningar

  • tengsl slæmra vinnuskilyrða og fjarveru starfsfólks

  • aukna vitund almennings um vinnutengda kulnun og hvernig megi fyrirbyggja hana

  • nýsköpun á sviði vinnuverndar

  • viðbrögð við áhrifum aukinnar sjálfvirkni og tæknivæðingar á vinnuumhverfið

  • áhrif samþættingar fjarvinnu og vinnu á vinnustað á vinnuvernd

Gæði rannsóknar- eða verkefnaáætlunar ásamt vísindalegu gildi, nýmæli og mikilvægi er lagt til grundvallar við mat á styrkhæfi umsókna auk menntunar og hæfis umsækjenda.

Stjórn sjóðsins annast mat á umsóknum um styrki en hana skipa fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Vinnueftirlitinu.

Vinnuverndarsjóður hefur 10 milljónir króna til úthlutunar á árinu 2025. Hámarksstyrkur til einstaks verkefnis er 4 milljónir króna.

Umsóknir sendist á vinnueftirlit@ver.is

Hægt er að óska eftir nánari upplýsingum á vinnueftirlit@ver.is