Ný framtíðarsýn, stefna og skipulag Vinnueftirlitsins
10. júní 2022
Vinnueftirlitið þróast í takt við örar breytingar á vinnumarkaði og því hefur stofnunin samþykkt nýja framtíðarsýn og stefnu til 2028. Hún var unnin í víðtæku samráði við hagsmunaaðila, fagráðuneyti, starfsfólk og stjórnendur stofnunarinnar.
Ný framtíðarsýn til 2028
Með öflugu vinnuverndarstarfi, sem er í stöðugri þróun í takti við örar breytingar á vinnumarkaði, hefur Vinnueftirlitið stuðlað að bættri vellíðan, heilsu og öryggi starfsfólks.
Árangursríkt vinnuverndarstarf er samstarfsverkefni atvinnurekenda og starfsfólks við að viðhalda og bæta öryggi og aðbúnað á vinnustöðum og þannig er komið í veg fyrir vinnuslys, óhöpp og vanlíðan starfsfólks.
Góð heilsa skilar atvinnulífinu aukinni framleiðni og samfélaginu ávinningi. Áreiðanlegar upplýsingar og greining gagna um þróun helstu áhættuþátta í vinnuumhverfi gerir okkur kleift að forgangsraða í eftirliti, forvarnarstarfi og upplýsingamiðlun.
Nýsköpun, umbætur og einföldun eru lykilatriði í okkar starfi og við höfum verið leiðandi í að benda á aðferðar, bæði nýjar og þekktar, til að bæta vinnuvernd á vinnustöðum.
Stefna
Helstu áskoranir munu meðal annars felast í breytilegum störfum, auknum kröfum um stafvæðingu og að ná til ólíkra hópa í eftirliti og fræðslu. Til þess að mæta þessum áskorunum hefur Vinnueftirlitið því skilgreint fimm meginmarkmið; vellíðan, öryggi, þátttaka, aðlögun og einföldun.
Skipulag
Til að styðja við innleiðingu stefnunnar hefur skipulagi Vinnueftirlitsins verið breytt á þann hátt að allt eftirlit tilheyrir nú nýju sviði vinnuverndar. Sviðið mun sinna eftirliti með framkvæmd laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ásamt því að veita fræðslu og upplýsingagjöf í því skyni að stuðla að góðri vinnuvernd á vinnustöðum landsins. Þrír faglegir straumar tilheyra sviðinu þar sem verkefni flæða í gegn frá upphafi til enda.
Straumur vettvangsathugana mun annast heimsóknir til vinnustaða landsins með áherslu á fimm meginstoðir vinnuverndar, hreyfi- og stoðkerfi, félagslegt vinnuumhverfi, vélar og tæki, efni og efnaáhættur og umhverfisþættir ásamt því að annast rannsóknir vinnuslysa.
Straumur vinnuvéla og tækja mun annast árlegar skoðanir vinnuvéla, verkleg próf og nýskráningar ásamt fræðslu og upplýsingagjöf til eigenda vinnuvéla.
Straumur stafrænna samskipta mun svo annast stafrænt eftirlit þar sem kallað er eftir gögnum frá vinnustöðum, markaðseftirlit og umsagnir vegna leyfisveitinga.
Einnig gerir nýtt skipulag ráð fyrir sérstakri verkefnastofu þar sem unnið verður að nýsköpun á sviði vinnuverndar ásamt öðrum þróunarverkefnum og innri umbótarverkefnum. Með þessari ráðstöfun stuðlar Vinnueftirlitið að því að verða verkefnamiðaðra í skipulagi sínu.