Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Aðgerðavakningin #Tökum höndum saman: Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni endurvakin

3. maí 2024

Í tilefni af alþjóðlega vinnuverndardeginum 28. apríl síðastliðnum endurvekur Vinnueftirlitið aðgerðavakninguna #Tökum höndum saman: Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni.

Vinnueftirlitid-frett-grípum til aðgerða

Aðgerðavakningunni var fyrst hleypt af stokkunum í byrjun árs 2023. Tilgangur hennar er að hvetja vinnustaði til að huga að samskiptum á vinnustaðnum og bregðast við kynferðislegri áreitni komi hún upp í vinnuumhverfinu.

Markviss viðbrögð skipta lykilmáli þegar kemur að því að uppræta kynferðislega áreitni og fyrirbyggja að hún valdi skaða. Því er mikilvægt að öll á vinnustaðnum séu vel upplýst og kynni sér meðal annars birtingamyndirnar og leiðir til að bregðast við. 

Ný lendingarsíða fyrir aðgerðavakninguna hefur verið útbúin á nýjum vef Vinnuseftirlitsins á Island.is, en á henni er hægt að fá aðgengileg svör við spurningum eins og: Hver eru viðbrögðin á vinnustaðnum þínum? og Hvað ef þú ert ekki viss?

Efninu er ætlað að minna á að kynferðisleg áreitni á ekki að líðast á vinnustöðum landsins og að mikilvægt sé að viðhafa forvarnir svo koma megi í veg fyrir slíka hegðun. Jafnframt er efninu ætlað að vekja stjórnendur og starfsfólk til umhugsunar um viðbrögð sín komi upp kynferðisleg áreitni á vinnustað þeirra og benda á árangursríkar leiðir til að uppræta hana.

Lendingarsíðan vísar svo yfir á dýpri umfjöllun um mikilvægi heilbrigðrar vinnustaðamenningar og hagnýt verkfæri til að fyrirbyggja og bregðast við einelti, áreitni og ofbeldi í vinnuumhverfinu. 

Efnið er unnið í samtarfi við samtök aðila vinnumarkaðarins, embætti landlæknis, Jafnréttisstofu og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.