Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Er ekki örugglega allt í lagi á vinnustaðnum þínum?

Atvinnurekendur eru eindregið hvattir til að verja fjármunum sínum frekar í öryggi og vellíðan starfsfólks en stjórnvaldssektir.

Með nýjum lögum sem tóku gildi 1. janúar 2025 er Vinnueftirlitinu heimilt að leggja stjórnvaldssektir á atvinnurekanda, verkkaupa eða fulltrúa hans þegar ítrekað er brotið gegn vinnuverndarlögunum. Með ítrekuðum brotum er átt við að Vinnueftirlitið hafi áður gefið fyrirmæli um úrbætur vegna sama brots.

Vakin er athygli á að þessi heimild er ekki bundin við ákveðnar starfsgreinar og getur því átt við hvaða atvinnurekanda sem er.

Í ákveðnum tilvikum þarf ekki að vera um að ræða ítrekuð brot heldur nægir eitt skipti.

Þetta á til dæmis við þegar:

  • Börn yngri en 13 ára ráðin til vinnu eða ungmenni ráðin til að vinna við hættulegar aðstæður.

  • Verkkaupi eða fulltrúi hans tilkynnir ekki um vinnustað áður en verklegar framkvæmdir hefjast.

  • Brotið er gegn banni við notkun á asbesti á vinnustöðum.

Eins og sjá má í dæmunum hér að ofan er gjarnan um ræða öryggisatriði sem auðvelt að uppfylla og eru mikilvæg til að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks.

Vinnueftirlitið hefur í sumum tilfellum gefið vinnustöðum ítrekað sömu fyrirmæli um sjálfsögð öryggisatriði.

Til dæmis:

  • Gefin eru fyrirmæli um að starfsfólk noti hjálma og fallvarnarbúnað við vinnu. Þegar Vinnueftirlitið kemur aftur á staðinn er búnaðurinn hvergi sjáanlegur en sóttur út í bíl þar sem hann gerir lítið gagn.

Eftir áramótin getur slík yfirsjón leitt til kostnaðar fyrir vinnustaði vegna stjórnvaldssekta.

#Tökum höndum saman: virðum þær öryggisreglur sem gilda í vinnuumhverfinu og látum slysin ekki koma í bakið á okkur.

Kynntu þér nánar breytingar á lögum um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem taka gildi 1. janúar 2025. Yfirlit yfir stjórnvaldssektarheimildir Vinnueftirlitsins er að finna í 8. grein breytingarlaganna.

Hvernig er stuðlað að því að öll á vinnustað taki þátt?

Vinnueftirlitið hvetur vinnustaði til að innleiða menningu þar sem áhersla er lögð á vellíðan og öryggi starfsfólks. Heilbrigð vinnustaðamenning leggur grunn að vellíðan og öryggi á vinnustað.

Það þýðir að:

  • Atvinnurekendur og stjórnendur þurfa í samvinnu við starfsfólk að setja gildi og viðmið fyrir vinnustaðinn sem lúta að öryggi og vellíðan starfsfólks.

  • Öll á vinnustaðnum þurfa að fylgja þeim reglum og viðmiðum sem vinnustaðurinn hefur sett sér.

  • Stjórnendur þurfa að gefa tóninn og ganga á undan með góðu fordæmi.

  • Þegar gildum og viðmiðum er breytt þá breytist hegðun starfsfólks á vinnustaðnum smám saman og þá menningin um leið. Ávinningurinn verður aukið öryggi og vellíðan starfsfólks

  • Öll á vinnustaðnum hafa áhrif á vinnustaðamenninguna og bera því ábyrgð hvernig til tekst.

  • Það skiptir líka máli að starfsfólk viti að það geti látið stjórnendur vita þegar hlutirnir eru ekki í lagi.

Ekki mikla hlutina fyrir þér. Byrjaðu strax í dag!

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með að vinnustaðir tryggi öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Þegar hlutirnir eru ekki í lagi fær atvinnurekandinn fyrirmæli um úrbætur.

#Tökum höndum saman: metum áhættuna í vinnuumhverfinu og bregðumst við hættunum.

Láttu það ekki henda vinnustaðinn þinn að fá stjórnvaldssekt – þetta er í þínum höndum!