Sýslumenn - stafræn umbreyting á tveimur árum
7. febrúar 2025
Sýslumannsembættin hafa á árunum 2023-2024 náð markverðum árangri í stafrænni umbreytingu og eru nú meðal fremstu stofnana í stafrænum lausnum. Flest þjónustuferli hafa verið færð í stafrænan farveg, sem gerir landsmönnum kleift að nálgast þjónustuna án þess að mæta á staðinn. Ár hvert þjónusta sýslumenn tæplega 60% landsmanna.


Meiri framleiðni embætta sýslumanna
Stafræn vegferð sýslumanna hefur einkennst af samvinnu og samstarfi milli embættanna þar sem starfsmönnum var veitt tækifæri til að taka þátt í og leiða stafræna umbreytingu í stað þess að stöðugildum væri fjölgað með ráðningum utanaðkomandi sérfræðinga. Þannig var stafræn umbreyting drifin af núverandi mannauði þar sem starfsmenn tóku að sér hlutverk vörustjóra fyrir mismunandi málaflokka. Vörustjórar sýslumanna þróuðu ný þjónustuferli í samstarfi við Ísland.is og aðrar stofnanir með áherslu á þarfir viðskiptavina. Á tímabilinu hafa sýslumenn tengst stofnunum og fyrirtækjum til að tryggja öruggt, sjálfvirkt og áreiðanlegt flæði upplýsinga í stað þess að senda viðskiptavini á milli staða í sömu erindum.


Á umbreytingartímanum hafa sýslumenn ráðist í útboð á tölvurekstri og hugbúnaðarþróun, fært upplýsingavef sinn á Ísland.is (fyrstir stofnanna), innleitt yfir 250 stafrænar lausnir og 120 sjálfvirka ferla og fært allar umsóknir, beiðnir o.fl. í stafrænt form. Þrátt fyrir aukinn málafjölda, fleiri verkefni og fjölgun íbúa um 30.000 manns hefur stöðugildum ekki verið fjölgað. Aukin hagræðing og hraðari innleiðing nýrra verkefna hefur skilað sér í aukinni ánægju með þjónustu sýslumanna, auknu trausti til þeirra og vaxandi ánægju meðal starfsmanna. Reynslan hefur einnig sýnt að þeir sem vinna beint með verkefnin finna oft bestu lausnirnar því með því að taka virkan þátt í breytingunum eykst ekki aðeins skilvirkni heldur einnig áhugi þeirra á að þróa og bæta eigin vinnuferla.