Rafræn málsmeðferð dánarbúsmála
13. janúar 2023
Sýslumenn hafa í rúmt ár unnið að því að öll málsmeðferð í dánarbúsmálum geti verið rafræn. Rafræn málsmeðferð dánarbúsmála er eitt af fjölmörgum stafrænum skrefum sem sýslumenn hafa tekið í að auka stafræna þjónustu þar sem notandinn og þarfir hans eru settar í fyrsta sæti.
Þrjú stór skref hafa nú verið tekin sem létta undir með aðstandendum látinna.
Sýslumenn móttaka nú rafræn dánarvottorð.
Þetta leiðir til þess að þegar læknir gefur út rafrænt dánarvottorð fer það sjálfkrafa og á sama tíma til sýslumanns, embættis landlæknis og Þjóðskrár. Þá þurfa aðstandendur látins einstaklings ekki lengur að nálgast vottorðið á heilbrigðisstofnun og fara með það til sýslumanns. Hér sparast mörg spor fyrir aðstandendur og stofnanir hins opinbera. Sex heilbrigðisstofnanir hafa þegar innleitt ferlið og er von á fleirum innan tíðar. Þess má geta að sýslumenn taka einnig ennþá á móti dánarvottorðum á pappír.
Aðstandendur geta nú tilkynnt andlát rafrænt.
Stuttu eftir að sýslumenn hafa móttekið rafrænt dánarvottorð fær tilgreindur aðstandandi í dánarvottorði, tilkynningu í stafrænt pósthólf sitt á Ísland.is um að hann þurfi að tilkynna um andlátið til sýslumanns. Það getur hann annað hvort gert með því að útfylla rafræna andlátstilkynningu eða að mæta á starfsstöð sýslumanns. Frekari leiðbeiningar um tilkynningu andláts er að finna á vef sýslumanna.
Skattframtöl sendast sjálfkrafa til sýslumanna.
Skattframtöl látins einstaklings berast nú sjálfkrafa beint inn í dánarbúsmál hjá sýslumanni sé gefið út rafrænt dánarvottorð. Erfingjar þurfa í þeim tilfellum ekki lengur að kalla eftir þessum gögnum frá Skattinum til þess að senda sýslumönnum.
Hvað er framundan?
Öll eyðublöð í dánarbúsmálum verði rafræn.
Upplýsingar um eignir og skuldir hins látna sendist sjálfkrafa beint í dánarbúsmál líkt og skattframtölin. Þá verða eignir og skuldir látins einstaklings að mestu forskráðar í þau eyðublöð sem erfingjar þurfa að útfylla vegna skipta á dánarbúi. Þá þurfa aðstandendur ekki lengur að fara á milli staða til að afla þessara upplýsinga nema aðeins í undantekningartilvikum.
Haghafar geti fengið upplýsingar um dánarbússkipti í gegnum vefviðmót, í stað þess að aðstandendur þurfi að ná í upplýsingar hjá sýslumönnum og fara með til tiltekinna haghafa.
Öll skjöl í dánarbúsmálum sem sýslumenn gefa út verði rafrænt innsigluð eða rafrænt undirrituð. Þá verður ekki lengur þörf á því að prenta skjölin út og skrifa undir þau og/eða stimpla.
Rafræn meðferð dánarbúsmála er samstarfsverkefni sýslumanna, Stafræns Íslands, embætti landlæknis, Þjóðskrár, Skattsins og ýmissa annarra haghafa.