Fara beint í efnið
Faggilding - ISAC Forsíða
Faggilding - ISAC Forsíða

Faggilding - ISAC

Um ISAC

ISAC – Faggildingarsvið Hugverkastofunnar (Icelandic Service for Accreditation) er hinn opinberi faggildingaraðili á Íslandi og annast allar tegundir faggildinga, bæði þar sem er lagaleg krafa um faggildingu og á sviðum þar sem fyrirtækjum er í sjálfsvald sett að láta faggilda starfsemi sína.

Faggilding hefur verið starfrækt á Íslandi frá árinu 1992, upphaflega á Löggildingarstofu en færðist yfir til Neytendastofu um tíma. Frá 2006 hefur faggilding verið starfrækt sem faglega og fjárhagslega sjálfstætt svið innan Hugverkastofunnar. Starfsemi ISAC heyrir undir menningar- og viðskiptaráðuneytið og nýtur framlags á fjárlögum en hefur einnig tekjur af þjónustugjöldum.

Lagalegur grundvöllur faggildingar er lög nr. 24 frá 2006, um faggildingu o.fl., og reglugerð nr. 566 frá 2013, um markaðseftirlit, faggildingu o.fl., sem innleiðir reglugerð (EB) 765/2008 um faggildingu og markaðseftirlit sem er grunnvirki faggildingarstarfsemi í Evrópu. Lögin tryggja að hægt er að starfrækja faggildingu á Íslandi í samræmi við alþjóðlega staðla og reglur. Faggildingarstarfsemin byggir á alþjóðlegu staðlaröðinni ÍST EN ISO/IEC 17000. ISAC starfar sjálft í samræmi við kröfur staðalsins ÍST EN ISO/IEC 17011:2017 Samræmismat - Kröfur til faggildingarstofnana sem faggilda samræmismatsstofnanir.

Hlutverk

Faggilding er formleg viðurkenning þar til bærs stjórnvalds á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat, svo sem að prófa eiginleika efna, skoða ástand tækja og verksmiðja eða votta stjórnunarkerfi. Samræmismat er mat á því hvort vara, ferli, kerfi eða aðili uppfylli kröfur, svo sem skoðun, prófun, vottun, kvörðun o.fl.

ISAC veitir faggildingu fyrir skoðunarstofur, prófunarstofur, kvörðunarstofur og vottunarstofur. ISAC ákvarðar um viðhald faggildingar, aukningu eða minnkun á umfangi faggildingar, og tímabundna niðurfellingu eða afturköllun faggildingar í samræmi við viðeigandi staðla, lög og reglugerðir. ISAC hefur einnig það verkefni að meta tilkynnta aðila (notified bodies) og annast málefni er lúta að reglum OECD um góðar starfsvenjur við rannsóknir (GLP – Good Laboratory Practice).

Alþjóðlegt samstarf

ISAC er aðili að Evrópusamtökum faggildingarstofnana, EA (European co-operation for Accreditation). Hlutverk EA er fyrst og fremst að tryggja samræmda starfsemi faggildingarstofnana í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, en einnig að vera vettvangur fyrir samstarf og samskipti allra faggildingarstofnana í Evrópu, innan sem utan EES.

Marghliða samkomulag EA um gagnkvæma viðurkenningu (EA Multi-lateral Agreement, MLA) auðveldar viðskipti með vörur og þjónustu í Evrópu og um allan heim. Gagnkvæm viðurkenning á faggiltum vottunum, skoðunum, kvörðunarvottorðum og prófunarskýrslum veitir greiðari aðgang að Evrópumarkaði og einnig alþjóðlegum mörkuðum í gegnum samstarf EA við við ILAC (International Laboratory Accreditation Co-operation) og IAF (International Accreditation Forum).

Aðilar EA sem hafa undirritað EA MLA samkomulagið þurfa að sæta ströngu fjölþjóðlegu jafningjamati. Markmiðið með þessu kerfisbundna mati, sem fer fram á vettvangi, er að sannprófa að faggildingarstofnanir sem hafa undirritað samkomulagið uppfylli áfram hin alþjóðlega samþykktu viðmið. Þetta jafningjamat tryggir samræmd og samhæfð faggildingarviðmið og auðveldar einnig þeim sem undirritað hafa samkomulagið að skiptast á upplýsingum og reynslu.

ISAC undirgekkst jafningjamat EA í apríl 2022 og varð aðili að MLA samkomulaginu hvað varðar faggildingu skoðunarstofa í október 2022.

Samstarfssamningur

Á milli ISAC og sænsku faggildingarstofnunarinnar SWEDAC er í gildi sérstakur samstarfssamningur sem felur í sér að SWEDAC annast, fyrir hönd ISAC, faggildingu á þeirri samræmismatsstarfsemi þar sem ISAC hefur ekki enn öðlast gagnkvæma viðurkenningu EA, svo sem á prófunar-, kvörðunar- og vottunarstofum.

Faggilding - ISAC

ISAC

kt. 520319 2120

Heim­il­is­fang

Katrínartún 4
105 Reykjavík

Hafðu samband

Sími: 580 9400
Netfang: isac@isac.is

Kvart­anir og ábend­ingar

Smelltu hér