Fara beint í efnið

Persónuupplýsingar og samfélagsmiðlar

Einstaklingsmiðaðar auglýsingar

Einstaklingsmiðaðar auglýsingar (á ensku microtargeting) eru auglýsingar á netinu sem er sérstaklega beint að tilteknum einstaklingi eða hópi einstaklinga út frá greiningu á persónuupplýsingum þeirra.

Svona virka einstaklingsmiðaðar auglýsingar

Notast er við ýmiss konar aðferðir til þess að afla persónuupplýsinganna, svo sem:

  • vafrakökur

  • samfélagsmiðlaviðbætur (á ensku social plugins) eins og „líkar þetta“- og „deila“-hnappa (á ensku like og share),

  • athugasemdakerfi tengd samfélagsmiðlum,

  • ferilvöktunarkóða (á ensku tracking pixels).

Tól af þessu tagi, sem kunna að vera notuð bæði á samfélagsmiðlinum sjálfum og á öðrum vefsíðum utan hans, safna upplýsingum um hegðun einstaklinga og samskipti þeirra á netinu í þeim tilgangi að búa til prófíl fyrir hvern einstakling. Þessi prófíll er svo notaður til þess að beina megi sérsniðnum auglýsingum og skilaboðum að einstaklingnum.

Dæmi: Ef þú er að skoða það að kaupa rafmagnshjól á netinu, gætir þú fengið einstaklingsmiðaðar auglýsingar frá hjólareiðaverslun, reiðhjólaverkstæði, hjólreiðasamtökum eða álika.

Auglýsandinn notar þá persónuupplýsingarnar til þess að greina til dæmis áhugamál einstaklinganna, skoðanir þeirra og annað sem varðar persónuleika þeirra eða aðstæður. Niðurstöður greiningarinnar eru svo notaðar til þess að beina sérsniðnum auglýsingum að tilteknum einstaklingum, til dæmis í gegnum samfélagsmiðla.

Takmarka einstaklingsmiðaðar auglýsingar

Mælt er með því að notendur samfélagsmiðla yfirfari friðhelgistillingar sínar reglulega. Það er gert með því að velja „Stillingar“ (á ensku settings eða account settings) eða sambærilegan valmöguleika.

Í flestum tilvikum er hægt að takmarka að einhverju leyti notkun persónuupplýsinga í þágu einstaklingsmiðaðra auglýsinga, en möguleikar á því eru þó mismunandi eftir samfélagsmiðlum.

Þjónustuaðili

Persónu­vernd

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820