Fara beint í efnið

Persónuupplýsingar og samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar eru ýmiss konar vefsíður og forrit sem gera þér kleift að birta upplýsingar um þig og aðra en einnig til að eiga samskipti við aðra notendur. Við notkun þeirra er mikilvægt að hafa ávallt í huga þá söfnun persónuupplýsinga sem getur farið fram á slíkum miðlum.

Meðvitund um upplýsingar sem þú veitir

Það er mikilvægt að við séum meðvituð um það hvaða upplýsingar við veitum samfélagsmiðlinum sjálfum um okkur. Þegar um er að ræða upplýsingar sem við viljum ekki að óviðkomandi aðilar fái aðgang að kann að vera heppilegra að notast við aðrar samskiptaleiðir.

Það er mælt með því að skoða vel persónuverndarstefnu miðilsins, notendaskilmála og annað sem máli getur skipt, svo sem upplýsingar um notkun á vefkökum. Þannig má afla sér vitneskju um það hvernig persónuupplýsingar notenda eru nýttar og í hvaða tilgangi.

Auka persónuvernd á samfélagsmiðlum

Friðhelgis- og auglýsingastillingar á samfélagsmiðlum geta veitt þér stjórn á því hvernig persónuupplýsingarnar þínar eru notaðar.

Það er rétt að yfirfara friðhelgistillingar reglulega og nýta þá möguleika sem bjóðast til þess að stýra því hvernig persónuupplýsingarnar eru notaðar. Þá er einnig nauðsynlegt að yfirfara reglulega þær heimildir sem hafa verið veittar öðrum vefsíðum eða smáforritum.

Þegar smáforrit eru notuð, til dæmis á Facebook, þarf notandinn iðulega að samþykkja að veita forritinu aðgang að tilteknum upplýsingum. Sama á við þegar notandinn velur að nota aðgangsauðkenni sín fyrir til dæmis Facebook til þess að skrá sig inn á aðrar vefsíður.

Þessi aðgangur getur verið misvíðtækur og er full ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart vefsíðum og smáforritum sem fara fram á víðtækari aðgang en þörf er á í þágu tilgangsins með notkun þeirra.

Réttindi varðandi persónuvernd á samfélagsmiðlum

Notendur samfélagsmiðla geta átt ýmiss konar réttindi á grundvelli persónuverndarlaga, sem geta komið að góðum notum þegar gætt er að persónuvernd og réttri meðferð persónuupplýsinga hjá miðlinum.

Einkum má benda á rétt notenda til aðgangs að persónuupplýsingum um þá sjálfa, og rétt þeirra til að láta leiðrétta eða eyða upplýsingum um sig við tilteknar aðstæður.

Ef þú ert í vafa um það hvernig þú getur nýtt rétt þinn samkvæmt persónuverndarlögum gagnvart samfélagsmiðli getur þú haft samband við samfélagsmiðilinn sjálfan og óskað eftir aðstoð og leiðbeiningum. Ef þú ert ekki sátt/sáttur við svörin sem þú færð, getur þú lagt fram formlega kvörtun til Persónuverndar.

Eyða aðgangi

Hafa skal hugfast að þótt tilteknu smáforriti sé eytt, til dæmis af Facebook eða úr síma viðkomandi notanda, er ekki þar með sagt að persónuupplýsingum notandans sé jafnframt eytt úr gagnagrunnum fyrirtækisins.

Áður en forritinu er eytt er rétt að kynna sér hvernig farið verður með persónuupplýsingarnar ef notkun þess er hætt, en upplýsingar um það ættu að vera aðgengilegar í gegnum forritið eða rekstraraðila þess.

Þjónustuaðili

Persónu­vernd

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820