Lögráðamenn barna undir 18 ára aldri
Foreldrar barna eða aðrir forsjáraðilar eru almennt lögráðamenn barna og ráða persónulegum högum þeirra. Sýslumaður sem yfirlögráðandi getur þó skipað barni fjárhaldsmann við sérstakar aðstæður.
Ef barn á eignir að verðmæti 1.206.710 krónur eða meira, þarf lögráðamaður þess að skila skýrslu til sýslumanns fyrir 1. mars ár hvert
Í skýrslunni á að gera grein fyrir eignum barnsins og taka fram helstu ákvarðanir varðandi fjárhald barnsins sem teknar voru á liðnu ári.
Ráðstöfun eigna barna
Fjárhaldsmanni / foreldri ber að halda fjármunum barns aðgreindum frá eigin fjármunum.
Eignir barna á að varðveita tryggilega og ávaxta eins og best er á hverjum tíma. Eignir barns sem eru að verðmæti meira en 1.206.710 kr. skulu varðveittar og ávaxtaðar í samráði við sýslumann.
Fjárhaldsmaður/ foreldri þarf samþykki sýslumanns til allra meiriháttar eða óvenjulegra ráðstafana á fjármunum barns, til dæmis:
Greiðslu kostnaðar af framfærslu eða námi
Kaups eða sölu fasteignar eða ökutækja
Veðsetningu eigna
Beiðni fjárhaldsmanns / foreldris um samþykki sýslumanns vegna ráðstafana á eignum barns, þarf að senda sýslumanni á þar til gerðu eyðublaði.
Beiðnina þarf að rökstyðja og gæta þess að nauðsynleg gögn fylgi með.
Nánar um fasteignakaup barna
Almennt er á því byggt að eignir barns skuli varðveittar eftir því sem kostur er þar til viðkomandi verður fjárráða. Í þeirri skyldu felst að ávaxta og varðveita fé barnsins, þannig að sem mestur arður fáist af því, fyrir sem minnstan tilkostnað og áhættu.
Nauðsynlegt er að fé barns sé til reiðu fyrir það til framfærslu og annarra hagsbóta, án mikillar fyrirhafnar eða röskunar á högum barnsins, þegar lögræðisaldri er náð við 18 ára aldur.
Það heyrir því til undantekninga að fallist sé á kaup barna á fasteignum, enda felast í slíkum ráðstöfunum miklar skuldbindingar og ábyrgð.Við veitingu heimildar til fasteignakaupa fer fram mat á persónulegum og fjárhagslegum aðstæðum barns, aldri þess og eðli og verði fasteignar.
Nánar um ráðstöfun fjármuna barns til framfærslu þess
Börn sem eru ófjárráða fyrir æsku sakir eiga ávallt framfærslurétt á hendur öðrum og er foreldrum skylt að framfæra barn sitt samkvæmt barnalögum nr. 76/2003. Þar af leiðandi ætti sjaldnast að vera þörf á að ganga á eignir barns til framfærslu þess. Almennt er á því byggt að eignir barna skuli varðveittar eftir því sem kostur er þar til fjárræðisaldri er náð og það meginsjónarmið er ríkjandi varðandi hvers kyns ráðstafanir á eignum barna að hið ófjárráða hafi beinlínis hag af ráðstöfuninni.
Þjónustuaðili
Sýslumenn