Fara beint í efnið

Lokað er fyrir umsóknir um hlutdeildarlán.
Upplýsingar um næsta úthlutunartímabil koma síðar.

Þú getur annars vegar sótt um hlutdeildarlán þegar þú hefur undirritað kauptilboð og hins vegar fyrir áætlað kaupverð. Umsækjendur með samþykkt kauptilboð hafa forgang við úthlutun.

Með samþykkt kauptilboð

Þegar þú hefur undirritað kauptilboð ferðu í greiðslumat og sækir um grunnlán hjá lánastofnun að eigin vali og um hlutdeildarlán. Þú getur notað greiðslumat frá annarri lánastofnun þegar þú sækir um hjá HMS.

Fylgigögn

  • Staðfesting á 5% eigin fé með viðskiptayfirliti frá banka.

  • Undirritað kauptilboð.

  • Álagningarseðill síðustu skattaskýrslu.

  • Greiðslumat frá lánastofnun sem grunnlánið er tekið.

  • Staðfesting á upphæð og lánskjörum grunnlánsins ef það er til staðar.

Þegar þú hefur sent umsóknina færðu tölvupóst til staðfestingar. Ráðgjafar HMS munu hafa samband með tölvupósti ef einhver gögn vantar.

Umsókn samþykkt með kauptilboði

Þegar lán er samþykkt er lánsvilyrði sent á Mínar síður HMS. Þú sendir það á fasteignasalann þinn sem sér um að veita HMS upplýsingar um kaupsamning, skuldabréf grunnlánsins og öryggisúttekt. Hlutdeildarlán er greitt út þegar viðeigandi skjölum hefur verið þinglýst.

Án kauptilboðs

Þú getur sótt um hlutdeildarlán fyrir áætlað kaupverð til að fá lánsvilyrði. Gott er að skoða stærðar- og verðmörk til að sjá hvaða upphæð þú hyggst sækja um. Eftir að umsókn er send inn ferðu í greiðslumat hjá HMS.

Fylgigögn

  • Staðfesting á 5% eigin fé með viðskiptayfirliti frá banka.

  • Álagningarseðill síðustu skattaskýrslu.

Þegar þú hefur sent umsóknina færðu tölvupóst til staðfestingar. Ráðgjafar HMS munu hafa samband með tölvupósti ef einhver gögn vantar.

Lán samþykkt án kauptilboðs

  1. Þú finnur eign sem fellur undir skilyrði hlutdeildarláns. Það geturðu gert með því að haka við hlutdeildarlán í nánari leitarskilyrðum á fasteignir.is eða öðrum fasteignasíðum.

  2. Þú gerir tilboð í fasteign sem fellur undir skilyrðin.

  3. Þegar þú hefur undirritað kauptilboð sendir þú það ásamt upplýsingum um grunnlán (ef það liggur fyrir) með tölvupósti á hlutdeildarlan@hms.is.

  4. Ef eignin uppfyllir skilyrðin færðu lánsvilyrði sem gildir í 3 mánuði. Það er sent á Mínar síður á vef HMS.

  5. Þú sendir lánsvilyrðið á fasteignasalann þinn sem sér um að veita HMS upplýsingar um kaupsamning, skuldabréf grunnlánsins og öryggisúttekt. Hlutdeildarlán er greitt út þegar þessi skjöl liggja fyrir og hefur verið þinglýst.

Lánsumsókn synjað

Ef lánsumsókn er synjað færðu tölvupóst með niðurstöðunni og ástæðum synjunar. Ef einhver gögn vantaði eða forsendur hafa breyst getur þú sent tölvupóst á hms@hms.is og beðið um endurupptöku með nýjum upplýsingum.

Ef þú ert ósammála niðurstöðunni getur þú kært hana til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Eigið fé

Eigið fé er upphæðin sem þú átt þegar skuldir (til dæmis skammtímalán, yfirdráttur eða bílalán) hafa verið dregnar frá eignum (til dæmis peningar eða bíll). Námslán teljast ekki með til skulda.

Þú getur nýtt séreignarsparnað sem þú hefur safnað frá 1. júlí 2014 (til 31. desember 2024) sem eigið fé. Þú getur nýtt að hámarki 500.000 krónur fyrir hvert ár á því tímabili sem þú velur. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Skattsins.

Kostnaður vegna lántöku

  • Lántökugjald er 58.500 krónur.

  • Greiðslumat kostar 8.400 krónur fyrir einstakling og 16.400 krónur fyrir sambúðarfólk.

  • Þinglýsingarkostnaður hjá sýslumanni er 2.700 krónur.

Mánaðarlegar úthlutanir

Á hverju ári er vissri upphæð ráðstafað til hlutdeildarlána. Hver mánuður er eitt úthlutunartímabil og ef fleiri sækja um heldur en er úthlutað til er dregið af handahófi. Umsækjendur með samþykkt kauptilboð hafa þó forgang við úthlutun. Ef umsókn er synjað vegna þessa er hægt að sækja um aftur í næsta mánuði.

Afgreiðslutími

Reynt er að taka umsóknir til vinnslu innan viku frá því að hún berst. Þegar umsókn er afgreidd eða ef gögn vantar færðu tölvupóst frá ráðgjafa.