Fara beint í efnið

Umsókn um happdrættisleyfi

Happdrættisleyfi

Vinsamlegast athugið að ef sótt er um í nafni fyrirtækis þarf prókúruhafi að sækja um.

Það þarf leyfi frá sýslumanni til að reka happdrætti, nema þegar lög segja til um annað.

Happdrætti þar sem spilað er um pening eða ígildi peninga má ekki reka nema samkvæmt sérstökum heimildum í lögum. Þessar heimildir eiga til dæmis við um: 

  • Happdrætti Háskóla Íslands

  • Happdrætti DAS 

  • Söfnunarkassa 

Sýslumaðurinn á Suðurlandi veitir leyfi fyrir happdrættum á landsvísu ef söluverðmæti útgefinna miða er yfir 2.000.000 kr. 

Sýslumenn hver á sínu svæði veita leyfi fyrir staðbundnum happdrættum þar sem söluverðmæti útgefinna miða fer ekki yfir 2.000.000 kr. 

Algengustu tegundir happdrætta eru:

  • Miðahappdrætti 

  • Skafmiðahappdrætti

  • Bingó 

  • Tombóla 

Skilyrði

Leyfi til að reka happdrætti má einungis veita félagi, samtökum eða stofnun sem er skráð á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilgangurinn verður að vera að afla fjár til almannaheilla svo sem til þjóðfélags-, líknar-, menningar-, íþrótta- eða góðgerðarmála, svo og til alþjóðlegs mannúðarstarfs.

Sami aðili getur einungis fengið þrisvar sinnum leyfi til að reka happdrætti á 12 mánaða tímabili. 

Sölutímabil happdrættis má að hámarki vera þrír mánuðir. Útdráttur vinninga skal fara fram á fyrirfram ákveðnum tíma, að fulltrúa sýslumanns viðstöddum, ef við á. 

Heimilt er að fresta útdrætti um allt að tvo mánuði frá áður ákveðnum útdráttardegi með sérstöku leyfi sýslumanns.

Útdráttur að viðstöddum fulltrúa sýslumanns

Þegar um miðahappdrætti er að ræða, þar sem á að draga út vinningshafa, þarf að panta tíma hjá sýslumanni fyrir útdráttinn sem fer þá fram að viðstöddum fulltrúa sýslumanns. 

Umsókn og fylgigögn

Fylla þarf út umsókn um leyfi til að reka happdrætti og senda á viðkomandi sýslumanns- embætti sem fer yfir umsóknina og gefur út leyfisbréf ef öll skilyrði eru uppfyllt. 

Í umsókninni þarf meðal annars að koma fram:

  • Fjöldi miða

  • Miðaverð

  • Fjöldi vinninga

  • Heildarverðmæti vinninga

  • Dagsetning útdráttar

Með umsókninni þarf að fylgja listi yfir vinninga og verðmæti hvers þeirra.

Hlutfall verðmætis vinninga af heildsöluverði útgefinna miða skal að lágmarki vera 16,67%.

Kostnaður

Ekkert gjald er greitt fyrir þessi leyfi.

Uppgjör að loknu happdrætti

Leyfishafi happdrættis þarf að senda sýslumanni uppgjör eða reikningsyfirlit í síðasta lagi 6 mánuðum eftir að happdrættinu lauk. Í uppgjörinu þarf að koma fram:

  • Hverjar voru tekjurnar (til dæmis af miðasölunni)

  • Hver var kostnaðurinn (til dæmis ef eitthvað var borgað fyrir vinninga)

  • Hver var hagnaðurinn

Undanþágur

Það þarf ekki leyfi fyrir happdrætti sem félag eða hópur stendur fyrir á árshátíðum eða álíka samkomum sem ekki eru opnar almenningi. Tilgangur samkomunnar má þó ekki eingöngu vera sá að afla fjár til tiltekins málefnis. 

  • Vinningarnir mega einungis vera vörur eða þjónusta, en ekki peningar. 

  • Hámarksfjárhæð samanlagðra verðmæta vinninga má ekki vera meiri en 1.000.000 kr. ef fjöldi á samkomunni er undir 500 manns, en annars 2.000.000 kr. 

  • Vinningana verður að draga út á samkomunni. 

Það þarf ekki leyfi fyrir eftirfarandi happdrættum ef kostnaður vegna þátttöku nemur ekki hærri fjárhæð en þreföldum raunverulegum kostnaði:

  • Kaupaukahappdrætti: Þegar gefinn er kostur á þátttöku í happdrætti við kaup á vöru eða þjónustu án endurgjalds. 

  • Auglýsingahappdrætti: Happdrætti sem er tengt við kynningu á vöru eða vörumerki án endurgjalds. 

  • Þekkingarhappdrætti: Þátttakandi svarar spurningum til dæmis með því að hringja inn í útvarpsþátt.

  • Ágiskunarhappdrætti: Þátttakandi greiðir ákveðið verð fyrir þátttöku og skilar ágiskun á úrslit í keppni (þó ekki íþróttakeppni) eða hvers kyns atvik eða atburð. 

Kærufrestur

Heimilt er að kæra ákvarðanir sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins innan þriggja mánaða frá móttöku.

Ef þú ert ekki með rafræn skilríki má skila umsókn á pdf formi

Happdrættisleyfi

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15