Reglugerð um strandveiðar gildir um veiðarnar ásamt reglugerð um (1.) breytingu á reglugerðinni.
Leiðbeiningar:
- Umsóknarfrestur er til 22. apríl, ekki er hægt að sækja um eftir þann tíma.
- Einstaklingur sem er skráður útgerðaraðili eða prókúruhafi útgerðaraðila sækir um leyfið í gegnum stafrænt umsóknarkerfi á Ísland.is.
- Hægt er að sækja um strandveiðileyfi þrátt fyrir að skilyrði um eignarhald og haffæri séu ekki uppfyllt.
- Að öllum skilyrðum uppfylltum er leyfið gefið út daginn sem sótt er um og tekur gildi á upphafsdegi strandveiða eða á umbeðinni dagsetningu eftir upphafsdag strandveiða.
- Greitt er fyrir leyfið í umsóknarferlinu og mikilvægt er að klára umsóknarferlið með því að ýta á Áfram eftir að greiðsla hefur verið framkvæmd.
- Veitt leyfi er sent í pósthólf viðkomandi umsækjanda á Ísland.is.
- Hægt er að fá frekari upplýsingar um umsóknarferlið með því að senda tölvupóst á fiskistofa@fiskistofa.is.
Skilyrði fyrir leyfisveitingu
Ekki er heimilt að stunda veiðar á grundvelli annarra leyfa á meðan strandveiðileyfið er í gildi.
Haffæri skipsins sem sótt er um leyfi fyrir verður að vera í gildi á gildistökudegi veiðileyfisins sem sótt er um. Samgöngustofa sér um útgáfu haffæriskírteina.
Einungis er heimilt að veita hverri útgerð eða eiganda skips leyfi til strandveiða fyrir eitt skip.
Einn einstaklingur þarf að eiga, beint eða óbeint í gegnum lögaðila, meira en 50% eignarhlut í skipi og skal sá aðili vera lögskráður á skipið og um borð þegar strandveiðar eru stundaðar.
Ekki er heimilt að gefa út strandveiðileyfi til skips hafi aflamark í þorskígildum talið, umfram það aflamark sem flutt hefur verið til skips, verið flutt frá skipinu. Frá því að sótt er um strandveiðileyfi er ekki heimilt að fara yfir þessi viðmið.
Leyfið er veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, og skal öllum afla fiskiskips landað í löndunarhöfnum þess landsvæðis.
Ekki er hægt að fá strandveiðileyfi fyrir svo kallaða „þróunarsjóðsbáta“.
Leyfið kostar 22.000 krónur, samhliða innheimtir Fiskistofa strandveiðigjald sem er 50.000 krónur
Greitt er með greiðslukorti í umsóknarferli og kostar leyfið í heild sinni 72.000 krónur

Þjónustuaðili
Fiskistofa