Fara beint í efnið

Öll ökutæki sem bera skráningarmerki með skoðunarmiða þarf að skoða reglulega á skoðunarstöð.

Ábyrgð á að fara með ökutæki til skoðunar liggur:

  • hjá skráðum umráðamanni, ef ökutæki hefur hann,

  • annars ber eigandi þá ábyrgð.

Skoðunartími

Límmiði á númeraplötu ökutækis (skoðunarmiði) gefur til kynna næsta skoðunarár (síðustu tveir tölustafir ársins). Næsta skoðunarár fer meðal annars eftir aldri ökutækisins, dæmi:

  • Venjulegir fólksbílar, sendibílar og bifhjól eiga að mæta í skoðun í fyrsta sinn eftir fjögur ár, svo á tveggja ára fresti í tvö skipti og loks árlega eftir það.

  • Stærri ökutæki, til dæmis hópbílar, vörubílar og eftirvagnar þeirra eiga að mæta árlega í skoðun.

  • Fornökutæki og ferðavagnar eiga að mæta í skoðun á tveggja ára fresti.

Almenna reglan er að færa skuli ökutæki til skoðunar í skoðunarmánuði sínum. Skoðunarmánuður innan skoðunarársins sést yfirleitt á síðasta staf á númeraplötunni:

  • Ef síðasti stafurinn er tölustafur þá táknar hann skoðunarmánuð. Þannig er 1 er janúar, 2 er febrúar og 0 er október.

  • Ef síðasti stafurinn er bókstafur þá er maí skoðunarmánuðurinn.

  • Fornökutæki, húsbifreiðir, ferðavagna (tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi) og öll bifhjól hafa skoðunarmánuðinn maí.

Þú mátt samt fara með ökutækið í skoðun bæði fyrir og eftir skoðunarmánuð (innan skoðunarársins).

  • Má skoða allt að 6 mánuðum fyrir skoðunarmánuð (innan skoðunarársins) og allt að 2 mánuðum eftir skoðunarmánuð.

  • Má skoða strax í janúar ef ökutækið fékk fullnaðarskoðun fyrir 1. nóvember árið áður.

Hafirðu ekki fært ökutækið til skoðunar tveimur mánuðum eftir skoðunarmánuð á skoðunarári þarftu að greiða vanrækslugjald

Ekki hægt að færa ökutæki til skoðunar

Ekki hægt að fá frest til að færa ökutæki til skoðunar, nema ef eigandi ökutækis

  • býr fjær en 80 kílómetra frá næstu skoðunarstofu og hafi ekki átt þess kost að færa ökutækið til skoðunar innan frests.

Í þeim tilvikum getur eigandi fengið viðbótarfrest í 2 mánuði með því að fylla út beiðni um frestun. Beiðnin þarf að hafa borist áður en frestur til að skoða ökutækið rennur út.

Ef ekki er hægt að færa ökutæki til skoðunar af öðrum ástæðum, svo sem vegna bilunar, það kemst ekki að á verkstæði, beðið er eftir varahlutum eða enginn kemst til að færa það til skoðunar,

Þegar ökutækið er tilbúið til skoðunar á ný er það aftur skráð í umferð og stuttur frestur gefinn til að færa það til skoðunar. Vanrækslugjald er ekki lagt á ökutæki sem skráð eru úr umferð.

Niðurstaða skoðunar

Að lokinni skoðun færðu skoðunarvottorð sem staðfestir að skoðun ökutækisins hafi farið fram. Þar kemur fram niðurstaða skoðunar sem getur verið:

  • Án athugasemda - lágmarkskröfum stjórnvalda um ástand ökutækisins náð

  • Lagfæring - innan 30 daga skal bætt úr öllum athugasemdum

  • Endurskoðun - án tafar skal bætt úr öllum athugasemdum

  • Akstursbann - notkun óheimil

Þegar niðurstaðan er lagfæring

Haga skal notkun öku­tækisins í samræmi við þær athugasemdir sem voru gerðar þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram. Þú hefur 30 daga til að ljúka þeim viðgerðum og þarft ekki að fara með ökutækið til skoðunarstöðvar að loknum viðgerðum.

Þegar niðurstaðan er endurskoðun

Nú hafa fundist meiriháttar annmarkar sem geta haft áhrif á öryggi ökutækisins eða á umhverfið og þarfnast tafarlausra viðgerða. Því er afar áríðandi að haga notkun ökutækisins í samræmi við þær athugasemdir sem gerðar voru þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram.

Þér ber svo skylda til að fara með ökutækið í endurskoðun á skoðunarstöð eða endurskoðunarverkstæði áður en frestur rennur út. Frestur er alltaf veittur til loka næsta mánaðar. Þú getur þó sótt um 30 daga framlengingu á frestinum en verður að gera það áður en útgefinn frestur til endurskoðunar rennur út. Sótt er um slíka framlengingu hjá skoðunarstofu og er hún aðeins veitt í eftirfarandi tilvikum:

  • þegar ekki er unnt að útvega varahluti til viðgerða á ökutæki eða

  • þegar ekki er hægt að fá tíma fyrir ökutæki á verkstæði til viðgerðar.

Þegar niðurstaðan er akstursbann

Þegar niðurstaðan er akstursbann er notkun ökutækisins bönnuð. Það er líka bannað að skrá ökutækið í umferð eða afhenda skráningarmerki hafi þau verið í innlögn. Tvær ástæður eru fyrir akstursbanni:

  • Eitthvað finnst að ökutækinu sem er það alvarlegt að aksturshæfni eða akstursöryggi ökutækisins er verulega ógnað og ekki óhætt að heimila áframhaldandi notkun á því.

  • Lögreglan hefur klippt númerin af ökutækinu vegna vanbúnaðar eða ástands eða boðað það til skoðunar vegna vanbúnaðar og skoðunin leiðir í ljós meiriháttar eða alvarlegar athugasemdir. Hér hefur viðhaldi eða skoðun ekki verið sinnt, eða ökutækinu verið breytt á óleyfilegan hátt, og nauðsynlegt þykir að stöðva notkun þess þar til bætt hefur verið úr.

Bannað er að nota ökutæki sem er í akstursbanni, með þessum undantekningum þó:

  • Það má færa eftirvagn, þ.m.t. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn, stystu leið til viðgerðarstaðar og til skoðunar.

  • Það má aka ökutæki með eigin vélarafli eftir að fullnaðarviðgerð hefur farið fram, frá viðgerðarstaðnum og stystu leið til skoðunar.

Hætt við skoðun sem er ekki lokið

Hægt er að hætta við byrjaða skoðun en aldrei eftir að henni er lokið. Ekki er heldur hægt að hætta við skoðun ef fundist hafa athugasemdir sem leiða til akstursbanns. Skoðunarstofa tilkynnir það til Samgöngustofu sem kannar ástæður þess að hætt var við skoðun og grípur mögulega til ráðstafana.

Gott að hafa í huga fyrir skoðun

Þú getur auðveldlega yfirfarið nokkur atriði á ökutækinu áður en farið er í skoðun. Það getur sparað bæði tíma og kostnað.

  • Yfirfarðu ljósin, sjáðu hvort kviknar á öllum ljósum og ekki gleyma númersljósunum. Um fimmtungur bíla fær athugasemd á bilun í númersljósum.

  • Athugaðu hvort rúðuþurrkublöðin eru orðin léleg og láttu endurnýja þau ef þau virka ekki nógu vel.

  • Skoðaðu hvort sprungur eða brot eru í framrúðunni og láttu skipta um hana ef svoleiðis er í sjónsviði ökumanns.

  • Renndu yfir öll öryggisbeltin og læsingar þeirra. Taktu barnastóla úr eða vertu viss um hvernig á að losa þá í skoðuninni. Skoðunarmaður þarf að hafa gott aðgengi að þeim öllum.

  • Ekki hafa bílinn fullan af dóti sem truflað getur skoðunina. Skoðunarmaður þarf að hafa eðlilegt aðgengi að öllum stjórntækjum og öryggisbúnaði um allan bíl.

  • Sé aftakanlegur tengibúnaður (hægt að smella kúlunni af) þá þarf kúlan að fylgja við skoðun því skoðunarmaður þarf að tengja hana og mæla. Einnig þarf að vera hægt að smella kúlunni af í skoðuninni ef hún skyggir á skráningarmerkið.

  • Nú er líka gott að nota tækifærið og finna viðvörunarþríhyrninginn sem á að vera í öllum bílum.

  • Ef kerran er með rafmagnshemla þá þarf skoðunarmaður að geta komist í stýribúnaðinn. Á ferðavögnum hann stundum í hólfi sem þarf að hafa ólæst svo skoðunarmaður komist að honum.

  • Ef þú ert að fara með bifhjól í skoðun þá gæti skoðunarmaður óskað eftir því að þú keyrir það við hemlaprófun fyrir utan stöðina.

Gott að hafa í huga að lokinni skoðun

Þegar skoðun er lokið þá gætu stillingar á sætum, spegla og ljósarofa hafa breyst. Gott er því að fara vandlega yfir þessi atriði úti á plani eftir skoðun svo ekkert óvænt komi nú upp á við aksturinn.

Mundu að það er

  • eigandi (umráðandi) ökutækis sem ber ábyrgð á að það sé í lögmæltu ástandi, og

  • ökumaður hverju sinni skal líka gæta þess að ökutækið sem hann ekur sé í góðu ástandi. Sérstaklega skal hann gæta að því að stýrisbúnaður, hemlar og ljósa- og merkjabúnaður, svo og öryggis- og verndarbúnaður, ökutækis sé í lögmæltu ástandi og virki örugglega. Sama á við um eftirvagn, svo og tengingu ökutækis og eftirvagns og tengibúnað.

Til að fylgja eftir þessari ábyrgð eiganda og ökumanns er þess svo krafist af stjórnvöldum að ökutæki séu reglulega færð til skoðunar. Nú er lokið einni slíkri skoðun og vonandi hefur hún gengið vel.

  • Hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir þýðir það að lágmarkskröfum stjórnvalda um ástand ökutækisins er náð. Það þýðir ekki að ökutækið sé í fullkomnu ástandi.

  • Hafi verið gerðar athugasemdir er mikilvægt að sinna viðgerðum sem fyrst og haga notkun ökutækisins til samræmis við athugasemdirnar sem gerðar voru þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram.

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa