Skilyrði fyrir komu útlendinga til Íslands
Það gilda ólíkar reglur um heimildir útlendinga til að koma til og dvelja á Íslandi eftir því hvaða ríkisfang þeir hafa.
EES/EFTA-borgarar
EES/EFTA-borgarar þurfa við komuna til Íslands að hafa meðferðis gild ferðaskilríki eða kennivottorð sem heimila þeim för yfir landamæri. Ferðaskilríkin þurfa að hafa gildistíma umfram dvöl þeirra á Íslandi.
EES/EFTA-borgarar sem vilja dvelja lengur en 6 mánuði á Íslandi þurfa að fylla út umsókn um skráningu í Þjóðskrá.
Norrænir ríkisborgarar
Ríkisborgarar Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar eru undanþegnir kröfunni um að hafa meðferðis gild ferðaskilríki eða kennivottorð við ferðalög milli Íslands og þessara landa. Athugið að undanþágan á aðeins við um för yfir landamæri en hefur ekki áhrif á skilríkjakröfur flugfélaga.
Ríkisborgarar ríkja utan EES/EFTA-svæðisins
Ríkisborgarar ríkja utan EES/EFTA-svæðisins þurfa við komuna til Íslands að hafa meðferðis gild ferðaskilríki eða kennivottorð sem heimila þeim för yfir landamæri. Ferðaskilríki eða kennivottorð þeirra þurfa að
hafa gildistíma í minnst þrjá mánuði umfram áætlaðan brottfarardag og
hafa verið gefin út á síðastliðnum 10 árum.
Til að mega dvelja á Schengen-svæðinu, þar með talið Íslandi, í allt að 90 daga á 180 daga tímabili, þurfa ríkisborgarar ríkja utan EES/EFTA-svæðisins að auki að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
Hafa gilda vegabréfsáritun - nema þeir séu undanþegnir áritunarskyldu eða handhafar dvalarleyfis sem gefið er út af öðru EES/EFTA-ríki.
Geta fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar.
Hafa nægt fé til framfærslu, bæði meðan á fyrirhugaðri dvöl stendur og til þess að snúa aftur til upprunalands, eða vera í aðstöðu til að útvega sér slíkt fé á lögmætan hátt.
Ekki vera skráðir í Schengen-upplýsingakerfið í þeim tilgangi að meina þeim komu til landsins.
Ekki vera taldir ógna þjóðaröryggi, allsherjarreglu, almannaheilsu eða alþjóðasamskiptum ríkisins eða annars Schengen-ríkis.
Ríkisborgarar ríkja utan EES/EFTA-svæðisins sem vilja dvelja lengur en 90 daga á Íslandi þurfa að sækja um dvalarleyfi.
Tvíhliða samningar um framlengda dvöl
Á grundvelli tvíhliða samninga er ríkisborgurum tiltekinna ríkja þó heimilt að dvelja á Íslandi í allt að 3 mánuði umfram þá 90 daga sem þeim er heimilt að dvelja á Schengen-svæðinu. Hér eru upplýsingar um hvaða lönd þetta eru.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun