Um vinnslu persónuupplýsinga á samfélagsmiðlum og á netinu
Samfélagsmiðlar eru ýmis konar vefsíður og forrit sem gera einstaklingum kleift að birta upplýsingar um sig og aðra en einnig til að eiga samskipti við aðra notendur.
Við notkun þeirra er mikilvægt að hafa ávallt í huga þá söfnun persónuupplýsinga sem getur farið fram á slíkum miðlum.
Meðvitund um upplýsingar sem settar eru á samfélagsmiðla
Það er mikilvægt að við séum meðvituð um það hvaða upplýsingar við veitum samfélagsmiðlinum sjálfum um okkur.
Ef óprúttnir aðilar komast ólöglega yfir persónuupplýsingar okkar, stöndum við berskjölduð gagnvart árásum þeirra.
Um leið og þeir hafa komist yfir einhverjar upplýsingar eiga þeir auðveldara með að blekkja okkur til að gefa upp meiri upplýsingar sem þeir geta nýtt sér enn frekar.
Þegar um er að ræða upplýsingar sem við viljum ekki að óviðkomandi aðilar fái aðgang að kann að vera heppilegra að notast við aðrar samskiptaleiðir.
Þá skal hafa hugfast að upplýsingar sem við setjum á netið geta verið notaðar til að beina að okkur einstaklingsmiðuðum auglýsingum.