Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Meðferð, varðveisla og eyðing á tölvupóstum

Inngangur

Afhendingarskyldir aðilar nota tölvupóst mikið í daglegum störfum og hefur notkun tölvupósts og afgreiðsla mála í gegnum tölvupóst aukist með aukinni notkun rafrænna samskipta. Mikilvægt er að meðferð, varðveisla og eyðing tölvupósta sé eftir ákveðnum ferlum og að tryggt sé að tölvupóstar sem varða mál sem eru til meðferðar hjá afhendingarskyldum aðilum og varða starfsemi þeirra séu skráðir og varðveittir á skipulegan hátt. Geymsla tölvupósta í tölvupósthólfum er ekki skipuleg varðveisla og getur orðið til þess að mikilvægar upplýsingar um ákvarðanir og afgreiðslu mála hjá afhendingarskyldum aðilum séu ekki fyrir hendi þegar á þarf að halda.

Reglur nr. 331/2020 um meðferð, varðveislu og eyðingu á tölvupóstum afhendingarskyldra aðila sem tóku gildi 15. apríl 2020 er ætlað að tryggja góða og vandaða meðferð á þessari skjalategund og að mikilvægar upplýsingar um athafnir og ákvarðanir afhendingarskyldra aðila varðveitist. Með setningu reglnanna er afhendingarskyldum aðilum heimilt að eyða tölvupóstum samkvæmt skilyrðum sem koma fram í 3. gr. reglnanna. Hér eru birtar leiðbeiningar með reglunum fyrir afhendingarskylda aðila um hvernig skuli haga meðferð, varðveislu og eyðingu á tölvupóstum.

Þessar leiðbeiningar samdi Njörður Sigurðsson, aðstoðarþjóðskjalavörður, en þær byggja á greinargerð með regludrögunum sem birtar voru þegar þær voru sendar í umsagnarferli.

Leiðbeiningar fyrir afhendingarskylda aðila - tölvupóstur

Notkunarreglur um tölvupósta ættu að vera hluti af heildarnotkunarreglum um skjalavörslu og skjalastjórn viðkomandi aðila þar sem tekið er á öllum þáttum í skjalahaldi. Margir afhendingarskyldir aðilar hafa þegar komið sér upp slíkum notkunarreglum og má nefna að ráðuneyti Stjórnarráðs Íslands hafa öll reglur um meðferð og notkun tölvupósts sem er hluti af starfsmannahandbók hvers ráðuneytis.

Þjóðskjalasafn Íslands hefur birt notendahandbók yfir skjalasafn safnsins á vef sínum til viðmiðunar fyrir afhendingarskylda aðila, sjá hér.

Upplýsingar um útgáfu:

Höfundur: Njörður Sigurðsson
Hönnun og vefsetning: Árni Jóhannsson
Útgefandi: Þjóðskjalasafn Íslands
Laugavegi 162
105 Reykjavík
590 3300

skjalavarsla@skjalasafn.is
www.skjalasafn.is

ISSN 1670-844X

© 2022 Þjóðskjalasafn Íslands [Útgefið 25. nóvember 2022]