Sjálfbærni og „Hjólaspa“ á Þjóðskjalasafni
21. maí 2024
Starfsfólk Þjóðskjalasafns hefur tekið átakinu Hjólað í vinnuna af mikilli gleði og áhuga. Lið safnsins, Skjalaverðir, hefur frá fyrsta degi verið í forystu í flokki fyrirtækja af stærðinni 30-69 og kílómetrarnir eru nú komnir vel yfir 1.000.
Einn af skjalavörðum safnsins rak áður hjólaverkstæði og var tilbúinn til þess að standa vaktina í verkstæði fyrir starfsfólkið sem haft var opið í tvo daga en naut slíkra vinsælda að þriðju vaktinni var bætt við og alls voru yfirfarin, smurð og löguð 19 hjól.
Sjálfbærni og lýðheilsa er eitt af leiðarljósum í stefnu Þjóðskjalasafns og hefur starfsfólk meðal annars kost á því að gera samgöngusamning við stofnunina og nota umhverfisvæna samgöngumáta til og frá vinnu. Þá styðja stjórnendur safnsins einnig þátttöku í viðburðum á borð við Hjólað í vinnuna og Lífshlaupið af einurð og tóku því vel þegar starfsfólk fékk þá hugmynd að setja upp sjálfbært „Hjólaspa“ í undirbúningi fyrir Hjólað í vinnuna.