Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Nýr vefur um jarðir og fasteignir

3. apríl 2025

Nýr vefur Þjóðskjalasafns Íslands um jarðir og fasteignir var opnaður á 143 ára afmæli safnsins. Vefurinn inniheldur frumheimildir um landamerki, fasteignamat, jarðamat og túnakort. Gögnin hafa mörg verið birt áður á eldri vef safnsins en ekki með því aðgengi sem hér er boðið.

Nýr jarðavefur Þjóðskjalasafns Íslands

Á vefnum, sem er aðgengilegur á slóðinni jardir.skjalasafn.is, má skoða stafræna endurgerð af mikilvægum og vinsælum heimildum um jarðir og fasteignir sem ná yfir tímabilið 1804–1998.

Birtar eru landamerkjabækur frá 1882–1998, jarðamat frá tímabilinu 1804–1850, fasteignamat frá 1916–1918 og túnakort frá 1916–1930. Einnig eru uppskriftir af landamerkjabókum birtar á vefnum og til stendur að birta uppskriftir af öðrum heimildum eftir því sem þær verða aðgengilegar.

Landamerki eru mörkuð skil á milli tveggja bújarða, til dæmis með girðingu, læk eða öðrum kennileitum. Í Landamerkjabækur voru skráð og staðfest opinberlega landamerki jarða.

Jarðamat er opinber skráning á jörðum og verðgildi þeirra. Þar er jörðinni lýst, gæðum hennar og hlunnindum sem gátu fylgt henni.

Fasteignamat er opinber skráning á verðgildi fasteignar.

Túnakort eru opinberar teikningar af túnum og matjurtagörðum sem sýna áttu flatarmál og ummál túna og garða.

Heimildirnar er hægt að nálgast frá nokkrum leiðum á nýja vefnum.

  • Hægt er að skoða vefsjá, þysja inn á tiltekinn stað á landinu og ef til eru gögn sem tengjast staðnum er hægt að smella á staðinn og skoða heimildirnar.

  • Hægt er að fletta í stafrænni endurgerð frumheimildanna, myndum af skjölum eða bókum.

  • Hluti af heimildanna er aðgengilegur í uppskrift og birtast þá textinn samhliða stafrænu endurgerðinni til þess að auðvelda lestur á handskrifuðum skjölum. Fyrst um sinn eru uppskriftir úr landamerkjabókum birtar.

  • Að lokum er hægt er að gera einfalda orðaleit sem leitar í öllum listum (heitum á heimildum sem innihalda staðaheiti) og uppskrifuðum gögnum.

Birting með vefsjá byggir á Sögulega og mann- og bæjatalinu sem Miðstöð um stafræn hugvísindi og listir hefur unnið að á undanförnum misserum í samstarfi við Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn og Árnastofnun. Þjóðskjalasafn er aðili að miðstöðinni og leggur til stóran hluta gagnanna í sögulega mann- og bæjatalið. Gagnagrunnurinn tengir manna- og bæjanöfn milli manntala frá 1703 til 1920.

Jarðavefurinn er fyrsta skrefið í endurnýjun Þjóðskjalasafns á vefmiðlun safnsins á menningararfinum og miðlun á frumheimildum í gegnum vefsjá, enda mikið af heimildum í safninu sem tengjast staðsetningu á einn eða annan hátt.