Vefur Þjóðskjalasafns opnaður á Ísland.is
15. maí 2024
Í dag var opnaður nýr vefur Þjóðskjalasafns Íslands á vefgátt stjórnvalda, Ísland.is. Slóðin á nýja vefinn er hin sama og áður var, skjalasafn.is.
Í dag var opnaður nýr vefur Þjóðskjalasafns Íslands á vefgátt stjórnvalda, Ísland.is. Slóðin á nýja vefinn er hin sama og áður var, skjalasafn.is.
Nýi vefurinn er aðalvefur stofnunarinnar með öllum almennum upplýsingum um Þjóðskjalasafn, starfsemi þess og þjónustu. Þar eru einnig allar reglur, almennar leiðbeiningar og ráðgjöf um skjalavörslu og skjalastjórn, námskeið og annað er snýr að hlutverki Þjóðskjalasafns sem stjórnsýslustofnunar með þjónustuhlutverk við almenning.
Markmið þessarar breytingar er að auka stafræna þjónustu, bæta aðgengi að upplýsingum og auka öryggi í stafrænum samskiptum. Stafræn vegferð stjórnvalda miðar að því að allar opinberar stofnanir færi þjónustu sína inn á Ísland.is.
Lögð er sérstök áhersla á að miðlun upplýsinga og fræðslu sé einföld og aðgengileg, hvort sem notuð er tölva eða sími til að vafra um vefinn. Ein nýjung í þjónustu eru til dæmis sérsniðin fyrirspurnarform um einstaka málaflokka, til dæmis ef leitað er upplýsinga um námsferil, jarðeignir, faðerni eða lögreglumál.
Næsta stóra skref í þróun vefmiðlunar Þjóðskjalasafns verður að sameina alla miðlun og rannsóknir á safnkosti og stafrænum aðgangi að skjölum og gögnum þjóðarinnar sem stofnunin varðveitir á nýjum miðlunarvef sem tengdur verður við nýtt skráningarkerfi safnsins. Stór hluti þessa efnis er nú aðgengilegur á vefnum „Stafrænar heimildir úr Þjóðskjalasafni Íslands“ á slóðinni heimildir.is. Þá eru skjalaskrár safnsins einnig áfram aðgengilegar á slóðinni skjalaskrar.skjalasafn.is.